„Þetta er gleðilegt skref í löngu ferli,“ segir Victor Berg Guðmundsson, einn eigenda Lavaconcept Iceland ehf. í Mýrdal. Fyrirtækið er nú að vinna 4.000 tonn af 0-5 mm sandblásturssandi sem seldur hefur verið til Þýskalands.
Sandurinn er tekinn á Fagradalsfjöru og Víkurfjöru. „Við reynum að tryggja að heimamenn og fyrirtæki úr Mýrdalshreppi vinni sem mest við þetta. Bara þessi prufusending hefur skapað 10-15 störf við mokstur, hörpun og akstur,“ sagði Victor.
„Við áætlum að það skapist 15-20 störf þegar við hefjum fulla vinnslu á næsta ári.“ Victor segir að vinnslan sé jákvæð í ljósi losunar gróðurhúsalofttegunda. Kolaknúnum orkuverum hefur verið lokað í Þýskalandi. Þar með fæst ekki lengur affall sem hefur verið notað til sandblásturs.
Sandinum er ekið til Þorlákshafnar. Þaðan fer hann með lausflutningaskipi undir mánaðamót.