Regnbogakort ILGA-Europe var gefið út á dögunum og sýnir að Ísland stendur í stað á milli ára og er í 14.sæti listans. Ef listinn er skoðaður er Ísland neðst af Norðurlöndunum, og lítil sem engin framför hefur átt sér stað þetta árið fyrir réttindi hinsegin fólks.
Samtökin hafa gefið út kortið frá árinu 2009 og ber það saman lagaleg réttindi hinsegin fólks á milli ríkja. Kortið má nálgast hér.
Ísland uppfyllir aðeins 54% af atriðum listans en Malta sem situr á efsta sæti listans sjötta árið í röð uppfyllir 89% atriða.
Samtökin ‘78 skora á stjórnvöld að vinna markvisst að réttarbótum hinsegin fólks og vilja þau að stjórnvöld taki kortið sem leiðarvísi í því hvað megi bæta.
„Samtökin ‘78 sjá fyrir sér að Ísland sitji í efsta sæti listans eftir fimm ár. Sem stendur hefur ekkert ríki uppfyllt öll atriði á lista ILGA-Europe og forystusætið í hinsegin jafnrétti á heimsvísu er þess vegna laust, en þangað á Ísland að stefna," segir Þorbjörg, formaður Samtakanna ‘78, í tilkynningu.