Formaður Trans Ísland og formaður Samtakanna '78 fagna því að sérstakar leiðbeiningar hafi verið gefnar út hvað varðar bólusetningu transfólks með bóluefni AstraZeneca. Aldursviðmið vegna bóluefnisins eru breytileg eftir kynjum en konur 55 ára og eldri mega fá efnið, sem og karlar 40 ára og eldri.
Hvorug samtökin höfðu kallað sérstaklega eftir leiðbeiningunum og segjast formenn þeirra ekki hafa heyrt af því að vandræði hafi skapast vegna skorts á leiðbeiningum.
„Það er mjög gott að það séu gefnar út ákveðnar leiðbeiningar vegna þess að aðstæður transfólks og þeirra heilsa er ákveðin sérstaða vegna þeirra hormónameðferða sem þau undirgangast,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir, formaður Trans Ísland.
„Mér finnst mjög jákvætt að það sé hugað sérstaklega að transfólki og þeirra heilsu í þessu samhengi vegna þess að oft er transfólk bara sett undir einhvern svona hatt og ekkert spáð í því að þeirra þarfir geta verið sérstakar í ákveðnum tilvikum, sérstaklega í læknisfræðilegu samhengi,“ segir Ugla.
„Við fögnum því að það sé sérstaklega tekið tillit til þessa hóps,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78.
Í leiðbeiningunum kemur fram að yngri transkarlar, sem og transkonur sem eru í hormónameðferð, ættu að fá annað bóluefni gegn Covid-19 en bóluefni AstraZeneca.
„Það þurfti að taka tillit til hormónastöðu viðkomandi með tilliti til þessarar áhættu. Þetta var gert í samráði við lækna sem þekkja til,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um leiðbeiningarnar fyrr í dag.
Ugla segir aðspurð að í raun sé um að ræða nauðsynlegar upplýsingar.
„Mér finnst mjög gott að sóttvarnalæknir og landlæknisembættið séu að huga sérstaklega að þessu vegna þess að við erum auðvitað öll mismunandi. Mér finnst mjög nauðsynlegt að það sé horft til ákveðinna hópa, hvort sem það er fatlað fólk, transfólk eða annað fólk sem gæti haft einhverjar sérstakar þarfir.“