„Orðin þokkalega æfð í að hreyfa okkur hratt“

Stærsta sóttkvíarhótelið er staðsett í húsnæði Fosshótels Reykjavíkur.
Stærsta sóttkvíarhótelið er staðsett í húsnæði Fosshótels Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Rauði krossinn hefur þurft að hafa hraðar hendur í Covid-19 faraldrinum, sér í lagi vegna stuttra samninga við Sjúkratryggingar Íslands um sóttkvíarhótel, sem gerðir eru til mánaðar í senn. Upplýsingafulltrúi Rauða krossins segir að starfsmenn grínist stundum með það að mögulega hafi verið slegið landsmet, ef ekki heimsmet, í ráðningum þegar mannauðsstjóri Rauða krossins þurfti að ráða 70-80 manns til starfa á sóttkvíarhóteli á tveimur til þremur dögum. 

„Það hefur alltaf verið samið til mánaðar í senn þannig að þetta hafa alltaf verið stuttir samningar hverju sinni. Svo hefur það verið metið eftir því sem líður á samningstímann í von um að menn geti reynt að spá eitthvað inn í framtíðina. Eftir því sem ég best veit er samtal í gangi eins og hefur verið allan þennan tíma, og verið að meta stöðuna jafn óðum,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins. Núverandi samningur gildir því til mánaðamóta.

„Allir vona að á einhverjum tímapunkti, fyrr en síðar verði hægt að loka þessum úrræðum.“

Mynd tekin í farsóttarhúsi.
Mynd tekin í farsóttarhúsi. Ljósmynd/Rauði krossinn

Dans sem þarf að stíga

Er ekki óþægilegt fyrir ykkur að vita ekki neitt um framhaldið lengra en mánuð fram í tímann?

„Þetta er búin að vera staðan í rúmt ár. Við opnuðum farsóttahús í fyrra sem átti bara að vera opið í fjórar til sex vikur og eftir rúmt ár í þessum leik erum við orðin þokkalega æfð í að hreyfa okkur hratt. Að sjálfsögðu væri þægilegra ef hægt væri að horfa lengra inn í framtíðina og gera meiri plön. Það er þá kannski erfiðast hvað varðar ráðningu starfsfólks vegna þess að það er þá alltaf verið að ráða það líka til skamms tíma í einu,“ segir Gunnlaugur og bætir því við að Rauði krossinn hafi haft heppnina í för með sér hvað umsækjendur varðar.

„Það hefur gengið vel að ráða en það hefur auðvitað verið töluvert mikil vinna og við höfum stundum grínast með það hérna innanhúss að mannauðsstjóri Rauða krossins hafi sett einhvers konar Íslandsmet, ef ekki heimsmet, í ráðningum þegar þurfti að ráða alla þessa 70-80 starfsmenn á tveimur til þremur dögum. Síðan hefur þetta verið ákveðinn dans sem við höfum þurft að stíga.“

Þörfin helst í hendur við reglugerðir 

Rauði krossinn rekur nú fjögur sóttkvíarhótel á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Hallormsstað. Að auki rekur Rauði krossinn eitt farsóttarhús, þar sem fólk í einangrun, smitað af Covid-19, dvelur. Spurður hvort Rauði krossinn finni enn fyrir þörf á öllum þessum úrræðum segir Gunnlaugur:

„Hún auðvitað helst bara í hendur við reglugerðir og kröfur hverju sinni. Á meðan þetta eru kröfurnar, það koma þetta margir til landsins á hverjum degi er þörf fyrir einhvers konar úrræði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert