Baldur S. Blöndal
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Rússa reyna að marka sér stöðu fyrir ráðherrafund Norðurskautsráðs sem fram fer nú í vikunni. Þetta sagði Katrín í samtali við mbl.is.
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands lét eftirfarandi ummæli falla á blaðamannafundi í Moskvu í aðdraganda fundarins:
„Allir vita að þetta er okkar svæði, okkar land. Við berum ábyrgð á Norðurskautsströndinni, allt sem rússneska ríkið gerir þarna er algjörlega lögmætt.“
Forsætisráðherra sagðist skýr á því að Norðurskautið væri okkar allra, og það ætti ekki einungis við um aðliggjandi lönd heldur heiminn allan. Þetta væri alþjóðlegt svæði sem skiptir allan heiminn máli og þess vegna hvíli skylda á Íslandi til þess að halda spennu á svæðinu í lágmarki.
Það væri enn fremur hlutverk íslenskra stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar á svæðinu, sem hún sagði gerast á tvöföldum hraða.
Sergei Lavrov er á leið til landsins vegna ráðherrafundar Norðurskautsráðsins en áætlað er að Lavrov fundi bæði með Katrínu Jakobsdóttur og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.