Skilti um gjaldskyldu við eldgosið

Skiltið sem um ræðir.
Skiltið sem um ræðir. Ljósmynd/Kristján Örn Kristjánsson

Við bílastæðið, sem markar upphafið að gönguleiðinni að eldgosinu í Geldingadölum, er nú komið skilti þar sem segir að gjaldskylda sé á svæðinu. Ef marka má skiltið kostar það nú 1.000 krónur að leggja bíl á bílastæðinu.

Segir á skiltinu að um einkaeign sé að ræða en eldgosið í Geldingadölum er í landi Hrauns við Grindavík.

Á skiltinu eru gefnar upp tvær greiðsluleiðir, annars vegar sé hægt að greiða með parka-appinu og hins vegar er gefin upp vefslóðin www.parka.is/geldingadalir. Það er hins vegar, enn sem komið er, hvorki hægt að greiða fyrir stæði í gegnum appið né á vefslóðinni.

„Gjaldtakan er nauðsynleg til að auka öryggi, bæta aðgengi og þjónustu og til þess að vernda náttúruna. Takk fyrir að sýna því skilning,“ segir á skiltinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert