Tveimur dögum hefur verið bætt við hjólreiðasölu Barnaheilla og munu þeir fara fram dagana 19. og 20. maí. Hjólreiðasöfnuninni lauk formlega miðvikudaginn 12. maí en í ár bárust yfir 300 umsóknir um hjól. Reiðhjólunum var síðan úthlutað til allra þeirra barna og ungmenna sem þurftu á hjólum að halda, víðsvegar af landinu.
Þegar söfnun og úthlutun er lokið, eru afgangshjól seld til almennings. Er þá um að ræða reiðhjól sem búið er að yfirfara sem eru síðan seld í því ástandi sem þau eru.
Öllum gefst kostur á að versla reiðhjól og leggja sitt að mörkum til endurnýtingar sem og fé til styrktar verkefnum Barnaheilla – Save the Children á íslandi en allur ágóði hjólasölunnar rennur til þeirra verkefna sem samtökin standa að.
Standa nú vonir til þess að kominn sé vísir að stækkun verkefnisins til landsbyggðarinnar svo enn fleiri börnum og ungmennum gefist kostur á að eignast reiðhjól burtséð frá búsetu, efnahag eða félagslegum aðstæðum, samkvæmt tilkynningu Barnaheilla.