„Við vitum að umræðan ein og sér getur ýft upp gömul sár og ef fólk vill leita sér aðstoðar þarf það stuðning og svigrúm til þess. Tímar hjá sálfræðingum eða sjúkraþjálfurum eða hvers kyns fagaðilum sem fólk gæti sótt þjónustuna til eru gjarnan á dagvinnutíma. Skilaboðin okkar eru að auka svigrúm fyrir fólk að sækja sér þessa aðstoð til að hjálpa þeim að vinna úr því áfalli sem þau urðu fyrir“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.
Aðalfundur BSRB samþykkti fyrr í dag ályktun um að lýsa yfir stuðningi við konur sem stigið hafa fram í nýrri bylgju MeToo með sögur af ofbeldi og áreitni, sem og þær konur sem ekki hafa stigið fram opinberlega með sínar sögur.
Í ályktuninni kemur fram að aðalfundur BSRB hvetji atvinnurekendur til að veita þolendum svigrúm til að leita sér aðstoðar til að vinna úr reynslu sinni.
„Almennt er ekki litið jákvæðum augum á skrepp frá vinnu. Þess vegna skiptir miklu máli að það sé hvatning til staðar fyrir fólk að leita sér aðstoðar frekar en hitt, því þegar fólk mætir neikvæðu viðmóti þegar það óskar eftir því að skreppa frá og vill kannski ekki útskýra sérstaklega af hverju, þá getur það fælt fólk frá því að leita sér hjálpar,“ segir Sonja.
Sonja segir að skýrar reglugerðir gildi um viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og áreitni á vinnustöðum og að ríkar skyldur hvíli á herðum atvinnurekenda að bæði fyrirbyggja og stöðva áreitni og ofbeldi. Aðspurð hvernig BSRB bregst við þegar einstaklingar leita til þeirra vegna slíkra mála segir Sonja:
„Fyrsta skrefið er að átta sig í hverju brotið felst og að meta í samráði við þann einstakling sem leitar til okkar hvort að þau vilji einnig leita sér annars konar aðstoðar, eins og sálfræðistuðnings. Okkar hlutverk er svo kannski meira lögfræðilegs eðlis, við förum yfir það hvort að atvinnurekandinn hafi brugðist við með réttum hætti í samræmi við lög og reglur og fylgjum málinu eftir.“
„Því miður hef ég ekki fundið fyrir því, eða margir í kringum mig í verkalýðshreyfingunni, að það hafi orðið mikil breyting á viðbrögðum atvinnurekenda þegar það er stigið fram og kvartað yfir áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum að því leytinu til að það endar gjarnan með því að það eru þolendur sem ljúka störfum og fara af vinnustaðnum en ekki gerendur.
Það þarf þó að setja þann fyrirvara að málin eru oft orðin býsna snúin þegar að fólk ákveður að leita til stéttarfélags. Við erum með rannsókn, sem náði yfir bæði einelti og kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni um það hvernig fólk upplifði viðbrögð atvinnurekenda þegar þau leituðu til þeirra, sem sýndi að það var almenn ánægja með viðbrögðin. Það helst þá kannski frekar í hendur að ef að atvinnurekandi bregst að litlu eða engu leyti við kvörtun þá vindur málið gjarnan upp á sig og einstaklingurinn upplifir að það sé ekki hlustað á sig, honum sé ekki trúað eða að hagsmunir gerenda séu hafðir í fyrirrúmi,“ segir Sonja Ýr.