Vilja efla samstarf Íslands og Bandaríkjanna

Antony Blinken og Guðlaugur Þór í Kaldalóni í Hörpu.
Antony Blinken og Guðlaugur Þór í Kaldalóni í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsti yfir mikilli ánægju með fund sinn með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Kaldalóni í Hörpu.

Guðlaugur Þór þakkaði Blinken fyrir að gefa sér tíma til að koma til Íslands, sérstaklega í ljósi þess að 70 ár eru liðin síðan samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði varnarmála hófst og sagði hann heimsókn Blinkens gott tækifæri til að styrkja samband þjóðanna enn frekar.

.
. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Guðlaugs ræddu þeir á fundinum um samstarf þjóðanna í öryggis- og varnarmálum, meðal annars um Nató og Keflavíkurflugvöll.

Ráðherrarnir ræddu einnig um að efla enn frekar viðskiptasamband ríkjanna og um umhverfismál. Guðlaugur kvaðst sérstaklega ánægður með að núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna skuli taka þátt á nýjan leik í Parísarsáttmálanum.

Einnig ræddu þeir um sameiginleg gildi og hugmyndir, sérstaklega með tilliti til mannréttinda, lýðræðis og jafnréttis kynjanna. Sömuleiðir ræddu þeir stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs og mikilvægi þess að vinna að lausn vandans á svæðinu og komast að friðsamlegri lausn en þar hafa átök átt sér stað á milli Ísraela og Palestínumanna að undanförnu.

„Þetta var árangursríkur fundur. Tony, þakka þér fyrir að koma til Íslands og eiga við okkur gott samtal,“ sagði Guðlaugur Þór.

Finnur fyrir stefnubreytingu

Guðlaugur Þór sagðist glaður að Bandaríkin skuli taka aukinn þátt í alþjóðsamvinnu og að hann finni fyrir stefnubreytingu hjá þjóðinni þess efnis. Hann sagði Bandaríkin vera leiðtoga hins frjálsa heims og að alþjóðasamningar séu ákaflega mikilvægir og ekki sé hægt að taka þeim sem sjálfsögðum hlut.

Hann kvaðst ánægður með að Bandaríkin taka þátt í tvíhliðasamningum með Íslandi og sá hann fram á enn styrkari samskipti á milli ríkjanna. Einnig sagðist hannn sjá fram á marga samninga á milli Íslands og Bandaríkjanna í framtíðinni, bæði tvíhliða og fjölhliða.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert