Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% á milli mánaða en vísitalan var 730,6 stig í apríl.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá.
Síðastliðna þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um 6,7%, síðastliðna sex mánuði um 8,3% og síðastliðna tólf mánuði um 13,7%.
Vísitalan í mars hækkaði um 3,3% milli mánaða en slík hækkun hefur ekki sést síðan í maí 2007. Upphaflega hafði verið greint frá því að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefði hækkað um 1,6% en þau mistök hafa verið leiðrétt.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs og er birtingu vísitölunnar ætlað að varpa ljósi á þróun fasteignaverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma.