Bæjaryfirvöld Akraneskaupstaðar vonast eftir því að Guðlaug á Langasandi verði jafn vel sótt í sumar og seinasta sumar. Faraldurinn setti strik í reikninginn í vetur, að sögn Sævars Freys Þráinssonar bæjarstjóra Akraness.
„Við höfum aðeins þurft að takmarka aðgengi að Guðlaugu í faraldrinum og stundum loka henni alveg,“ segir hann.
Fyrir faraldurinn má gróflega ætla að þriðjungur gesta hafi verið erlendir ferðamenn, þriðjungur innlendir ferðamenn og þriðjungur heimamenn.
Að sögn Sævars stendur til að leggja á hóflegt gjald fyrir gesti Guðlaugar, en í dag er aðgangurinn ókeypis, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.