Yngri transkarlar eiga ekki að fá AstraZeneca

Frá bólusetningu gegn Covid-19.
Frá bólusetningu gegn Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóttvarnalæknir hefur gefið út sérstakar leiðbeiningar til transfólks vegna bólusetningar gegn Covid-19. Hann gefur þessar leiðbeiningar út þar sem aldursmörk fyrir notkun Astra Zeneca bóluefnis eru mismunandi eftir kynjum. Í leiðbeiningunum kemur fram að yngri transkarlar, sem og transkonur sem eru í hormónameðferð, ættu að fá annað bóluefni gegn Covid-19 en bóluefni AstraZeneca. 

Eins og áður hefur komið fram miðast aldurstakmörk í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca við 55 ára aldur hjá konum, þ.e. konur sem eru yngri en 55 ára fá ekki bóluefnið vegna sjaldgæfra aukaverkana sem hafa komið upp í þeim hópi í kjölfar bólusetningar. Körlum sem eru 40 ára og eldri verður boðið bóluefnið. 

„Það þurfti að taka tillit til hormónastöðu viðkomandi með tilliti til þessarar áhættu. Þetta var gert í samráði við lækna sem þekkja til,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um leiðbeiningarnar.

Umræddar leiðbeiningar eru á þá leið að transkarlar, sem eru yngri en 55 ára og eru skráðir sem karlar í Þjóðskrá, eigi að biðja um að fá annað bóluefni en það frá AstraZeneca. Þetta geta transkarlar gert með því að setja sig í samband við sína heilsugæslu. Ef transkarlar, sem eru yngri en 55 ára gamlir, eru skráðir í þjóðskrá sem konur er nú þegar merkt í bólusetningarkerfinu að þeir fái ekki bóluefni AstraZeneca. 

Eldri konur í hormónameðferð ættu ekki að fá Astra

Hvað transkonur, sem eru í hormónameðferð varðar en eru skráðar í þjóðskrá sem karlar, varðar þá er þeim ráðlagt að hafa samband við sína heilsugæslustöð til þess að fá annað bóluefni en það frá AstraZeneca. Ef konurnar eru ekki í hormónameðferð þá er ekki talin ástæða til sérstakra ráðstafana. Ef transkonur eru skráðar sem konur í Þjóðskrá er nú þegar merkt í kerfið að þær fái ekki bóluefni AstraZeneca, ef þær eru yngri en 55 ára gamlar. 

Þá ættu transkonur sem eru eldri en 55 ára og í hormónameðferð að hafa samband við heilsugæslu til að fá merkingu til að fá annað en Astra Zeneca bóluefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert