Ábyrgðarmaður að láni frá Menntasjóði (áður LÍN) var sýknaður í héraðsdómi af kröfu um greiðslu lánsins sem nam 7 milljónum króna auk dráttarvaxta. Hefur þetta mikla þýðingu fyrir þá 1.211 ábyrgðarmenn sem eru í sambærilegri stöðu.
Menntasjóður hafði túlkað vanskil með þeim hætti að allt lánið teldist í vanskilum ef hluti þess, jafnvel ekki meira en ein afborgun, var í vanskilum.
Er nú ljóst að ábyrgðarmenn beri aðeins ábyrgð á þeim hluta sem var í vanskilum við gildistöku laganna en ekki láninu öllu eins og Menntasjóður hélt fram.
Þegar nýju lögin tóku gildi voru tveir gjalddagar á láninu í vanskilum. Greiddi viðkomandi það en krafðist sýknu af eftirstöðvunum og var fallist á það í héraðsdómi í dag.
Rúmlega 29 þúsund ábyrgðir ábyrgðamanna á námslánum sem tekin voru fyrir mitt ár 2009 voru felldar niður í kjölfar gildistöku laga um Menntasjóð námsmanna í sumar. Eftir stóðu þó 1.211 einstaklingar sem enn eru í ábyrgðum fyrir lántakendur. Helgast það af því að lántakendur voru ekki í skilum þegar lögin tóku gildi.
Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, fór með málið fyrir hönd ábyrgðarmannsins. Hann segir þetta afdrifaríkan dóm þar sem nú séu aðrir 1.211 einstaklingar sem geta leitað réttar síns eftir að hafa ranglega fengið á sig fellda ábyrgð. Þessir ábyrgðarmenn geta nú losnað við ábyrgðina með því að greiða einungis það sem var í vanskilum við gildistöku laganna.