Ætla að flytja koltvíoxíð til landsins í tonnatali

Koltvíoxíð verður flutt til landsins á sérhönnuðum skipum sem ganga …
Koltvíoxíð verður flutt til landsins á sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti.

Fyrirtækið Carbfix hefur samið við danska skipafélagið Dan-Unity CO2 um flutninga á koltvíoxíði til förgunar á Íslandi. Fyrstu skipin byrja að sigla hingað til lands árið 2025 en hvert skip mun flytja 12-24 þúsund tonn af koltvíoxíði á vökvaformi. Áætlað er að hægt verði að farga allt að þremur milljónum tonna árlega í Straumsvík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Carbfix.

Koltvíoxíðinu sem flutt er til landsins verður fargað í nýrri Coda Terminal-móttöku- og förgunarmiðstöð Carbfix í Straumsvík þar sem tækni Carbfix verður beitt til að binda það í grjót.

Carbfix er verkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sem felur í sér að lækka varanlegan styrk koltvíoxíðs í andrúmslofti. Það hefur verið með starfsemi við Hellisheiðarvirkjun undanfarin ár.  

Umhverfisvænn og ódýr kostur

Áætlaður kostnaður við flutning og förgun koltvíoxíðs í Straumsvík er 30 til 65 evrur á hvert tonn, eða um fimm til tíu þúsund íslenskar krónur. Til samanburðar kostar um 100 evrur, eða tæpar 16 þúsund íslenskar krónur, að flytja og farga hverju tonni í sambærilegu verkefni í Noregi. Því má ætla að eftirsóknarvert verði að farga koltvíoxíði með þessum hætti hér á landi.  

Kolefnissporið sem hlýst af skipaflutningunum verður einungis 3-6% af því koltvíoxíði sem fargað verður og fer svo lækkandi með tímanum, samkvæmt tilkynningunni frá Carbfix. Dan-Unity CO2 mun flytja það til landsins á sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert