Frumvarp um að Ríkisútvarpið ohf. (Rúv.) hætti að selja auglýsingar og kostun dagskrárliða er komið á dagskrá Alþingis. Markmið frumvarpsins er að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki.
Flutningsmenn eru þeir Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. „Þetta er tiltölulega einföld breyting í tveimur skrefum,“ segir Óli Björn í samtali við Morgunblaðið. „Við leggjum til að á næsta ári verði verulega dregið úr samkeppnisrekstri Rúv. og alfarið eftir 2023.“
Lagt er til bráðabirgðaákvæði um að bein sala á auglýsingum verði bönnuð, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á klukkutíma, ekki megi slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og loks er lagt til að kostun verði bönnuð.
„Þetta er einfaldlega lykilforsenda þess að hér verði til heilbrigt og eðlilegt rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla,“ segir Óli Björn.