Gekk vonum framar við erfiðar aðstæður

Slökkvistarfi við Kúludalsá, nærri Hvalfjarðargöngunum þar sem sinueldur kviknaði í gærkvöldi, lauk að mestu um tvöleytið í nótt.

Að sögn Björns Bergmanns Þórhallssonar, aðstoðarslökkviliðsstjóra hjá slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar, gekk vonum framan að slökkva eldinn við mjög erfiðar aðstæður. Svæðið var vaktað til klukkan sex í morgun.

Spurður út í tjónið segir Björn að eldurinn hafi kviknaði í beitilandi, móum og þúfum og svæðið hafi verið erfitt yfirferðar fyrir slökkviliðsmenn. Einnig kviknaði í einhverjum græðlingum.

Slökkviliðinu tókst að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í gáma á svæðinu. Allt tiltækt lið slökkviliðsmanna tók þátt í að ráða niðurlögum eldsins, eða um 15 til 20 manns.

Upptök eldsins eru óljós en þurrt er á svæðinu og var eldurinn fljótur að breiðast út. 

Slökkviliðsmenn að störfum í gærkvöldi.
Slökkviliðsmenn að störfum í gærkvöldi. Ljósmynd/Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert