Segir hjólandi sífellt þurfa að víkja fyrir bílum

Erlendur segir venju samkvæmt enga hjáleið merkta við lokunina.
Erlendur segir venju samkvæmt enga hjáleið merkta við lokunina. Samsett mynd

Stjórnarmaður í Landssamtökum hjólreiðamanna er ósáttur við að hjólreiða- og göngustígum sé síendurtekið lokað til þess að greiða götu bílaumferðar. Þetta sé sérstaklega einkennilegt í ljósi yfirlýsinga ráðamanna um mikilvægi fjölbreyttra fararskjóta. Þetta sagði Erlendur S. Þorsteinsson í samtali við mbl.is.

Nýjasta dæmi þessa er lokun við Hörpu vegna ráðherrafundar Norðurskautsráðs. Engar hjáleiðir eru merktar við lokunina. 

Talsmaður lögreglu segir að Reykjavíkurborg hafi sett upp lokunina eftir teikningum lögreglu en það hafi gleymst hjá borginni að setja upp skilti fyrir hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur, því yrði kippt í liðinn.

Viðbúnaður vegna fundahaldanna var mikill en lokunin náði alveg upp að gatnamótum Sæbrautar og Faxagötu og teygði sig þannig yfir hjólreiðastíginn sem liggur meðfram götunni.

Erlendur vakti athygli á málinu á Twitter í dag og velti því upp hvers vegna bílaumferð hefði ekki verið færð yfir á syðri veghluta Sæbrautar og þannig hefði verið hægt að hleypa gangandi og hjólandi vegfarendum í gegnum nyrðri hluta brautarinnar. Slíkt væri hættuminna og myndi hægja á hraða umferðar.

Lokunin í núverandi mynd bitnar eingöngu á hjólandi og gangandi vegfarendum en bílaumferð gengur sinn vanagang. Í vesturhluta lokunarsvæðisins sé svipað upp á teningnum þar sem einfaldlega er lokað fyrir aðgengi gangandi og hjólandi á Austurbakka og vegfarendur þurfa að snúa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert