Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lenti á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag. Hann er mættur hingað til lands til að taka þátt í fundi Norðurskautsráðsins, en hann fundar með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, síðar í kvöld.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók á móti Lavrov við komuna í Hörpu nú fyrir skemmstu.
Fundar þeirra Blinkens er beðið með nokkurri eftirvæntingu, en þetta er fyrsti fundur ráðamanna í Bandaríkjunum og Rússlandi frá því ríkisstjórn Joe Biden tók við völdum í janúar. CBS-fréttastofan segir að samskipti ríkjanna tveggja hafi ekki verið verri síðan á tímum kalda stríðsins, en hertar viðskiptaþvinganir og brottvísanir diplómata hafa helst einkennt samskiptin á síðustu mánuðum.
Talið er víst að málefni rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní verði til umræðu á fundinum, sem og ásakanir Bandaríkjamanna um tilraunir Rússa til afskipta af forsetakosningunum þar í landi og loftárásir Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu.