Meðal helstu leiða til að bæta afkomu sauðfjárbænda á Íslandi er að koma á fót markaðsstöðugleikasjóði sem hefur það hlutverk að draga úr óvissu framleiðenda varðandi verð og önnur markaðsskilyrði.
Þetta kemur fram á fundi sem fór fram í morgun þar sem Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, kynnti helstu niðurstöður skýrslu um afkomu sauðfjárbænda á Íslandi sem unnin var að beiðni Kristján Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Samkvæmt tillögu Jóhannesar yrði sjóðurinn upphaflega settur af stað með sérstakri fjármögnun en seinna meir myndi sauðfjárræktargreinin viðhalda honum sjálf með því að leggja gjald á alla framleiðslu.
Meðal annarra leiða sem voru kynntar sem hluti af aðgerðaáætlun við að bæta afkomu sauðfjárbænda var að halda áfram að draga úr framleiðslukostnaði og ná hærra afurðaverði til bænda.
Frá 2014 til ársins 2017 átti sér stað 40% lækkun á afurðatekjum til bænda. Síðan þá hefur verðið hægt og rólega þokast upp á við en tekjurnar eru enn ekki nægilegar til að halda uppi almennilegum rekstri.
Samkvæmt tölum frá 2020 er skilaverð til bænda á Íslandi 504 krónur á hvert kíló en meðalverð í Evrópusambandinu 901 króna á kíló. Verðið á Íslandi er jafnframt það næstlægsta í Evrópu en einungis Rúmenía er neðar.
Skýrslan bendir til þess að tekjurnar dugi rétt svo til að greiða fyrir útlagðan kostnað sem fylgir sauðfjárræktuninni. Samkvæmt Jóhannesi hefur þessi þróun leitt til þess að sauðfjárbændur neyðast til að leita annarra leiða til að afla tekna og eru því margir sem leita út fyrir búið að vinnu.