Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, þar sem aukin minnihlutavernd í veiðifélögum var lögð til, var samþykkt á Alþingi í gær.
Sambærilegt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga.
Meðal breytinga sem frumvarpið nær til er grein lagana sem kveður á um ráðstöfun veiðiréttar. Nýju ákvæði var bætt við um að samþykki hið minnsta tveggja þriðjuhluta atkvæða þurfi ef lagt er til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hefur á viðkomandi veiðisvæði, nema að breytingarnar séu óverulegar.
Frumvarpið sem um ræðir er stundum kennt við Ratcliffe, breskan auðkýfing sem keypt hefur upp stóra hluta veiðiréttar í íslenskum lax- silungsveiðiám.
Með frumvarpinu er reynt að torvelda að einn aðili geti stjórnað algjörlega ákvörðunum sem snúa að ákveðnum veiðifélögum, þó að hann eigi meirihluta í veiðirétti árinnar.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra sem lagði fram frumvarpið, hefur þó neitað að frumvarpið hafi verið lagt fram til höfuðs Ratcliffe.