Stefna bönkum fyrir vextina

„Þetta varðar á fimmta tug þúsunda lána til Íslendinga. Af um 1.550 milljörðum króna sem lán til heimilanna nema eru um 1.300 milljarðar lán með breytilegum vöxtum. Það þýðir að hvert prósentustig upp eða niður er 13 milljarðar. Þetta eru engar smá upphæðir,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin hleypa í dag af stokkunum verkefni sem ætlað er að fá niðurstöðu dómstóla í baráttumáli samtakanna um að lán með breytilegum vöxtum standist ekki lög. Neytendasamtökin telja að skilmálar velflestra lána séu ólöglegir þar sem ákvarðanir um vaxtabreytingar séu verulega matskenndar og ógegnsæjar. Af þeim sökum sé ekki hægt að sannreyna hvort þær séu réttmætar. Hyggjast samtökin stefna íslensku bönkunum vegna þessa.

Í dag verður sett í loftið vefsíðan vaxtamalid.is þar sem fólk getur kynnt sér þetta ítarlega og skráð þátttöku í málsókninni. Að minnsta kosti 3 mál verða rekin sem prófmál.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Breki að Neytendasamtökunum reiknist til að bankarnir hafi oftekið 15-45 milljarða króna í vexti á liðnum árum. Viðræður við bankana um breytt fyrirkomulag hafi engu skilað. „Við höfum síðasta 1½ ár verið í viðræðum og bréfaskriftum við bankana um þetta. Niðurstaðan er að við erum ósammála.“

Bætt við klukkan 7

Neytendasamtökin telja lán með breytilegum vöxtum ólögleg þar sem ákvarðanir um vaxtabreytingar eru verulega matskenndar og ógegnsæjar. „Fjölmargir dómar og úrskurðir hafa fallið á sama veg: óskýrir skilmálar og einhliða vaxtabreytingar er fyrirkomulag sem stenst ekki lög. Má í því sambandi benda á dóm Hæstaréttar frá árinu 2017 þar sem Íslandsbanka var gert að endurgreiða hundruðum lántakenda oftekna vexti en einnig dóma Evrópudómstólsins og úrskurð Neytendastofu.

Samtökin kröfðust þess að bankarnir lagfærðu skilmála sína og leiðréttu hlut þeirra lántaka sem hallað hefur verið á með vaxtabreytingum sem standast ekki ákvæði laga. Bankarnir höfnuðu kröfum Neytendasamtakanna,“ segir í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.

Vaxtamálið varðar öll lán með breytilegum vöxtum til neytenda, bæði verðtryggð og óverðtryggð, hjá öllum lánastofnunum, bæði húsnæðislán sem og önnur lán, jafnvel þó að ekki hafi reynt á vaxtabreytingar. „Lán sem bera „fasta vexti“ hluta lánstímans, til dæmis 3-5 ár en sem geta tekið breytingum, eru í raun lán með breytilegum vöxtum. Einnig er um að ræða lán sem hafa verið greidd upp á síðastliðnum fjórum árum. Lánin einskorðast ekki við bankana, heldur einnig aðrar lánastofnanir svo sem lífeyrissjóði og sparisjóði.

Til að gefa einhverja hugmynd um hvaða upphæðir er að ræða fyrir hvern og einn lántaka má miða við dæmigert 30 m.kr. húsnæðislán. Hvert oftekið prósentustig í vöxtum nemur 300.000 kr. á ári. Neytendasamtökunum reiknast til að oftakan sé allt að 2,25 prósentustig eða sem nemur 675.000 kr. á ári, miðað við gefnar forsendur,“ segir ennfremur í tilkynningu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert