Tæp 60% starfsfólks Landspítalans í hlutastarfi

Landsspítali
Landsspítali Þorvaldur Örn Kristmundsson

56,8 prósent starfsmanna Landsspítalans voru í hlutastarfi árið 2020, en rúm 42 prósent í fullu starfi. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar þingmanns um rekstur Landsspítalans.

Í svarinu kemur fram að hlutfall starfsmanna í hlutastarfi hafi haldist að mestu stöðugt síðustu ár en hækkað lítillega frá árinu 2010, eða um rúm þrjú prósentustig.

Gera má ráð fyrir að einhver fjöldi starfsmanna í hlutastörfum á spítalanum vinni einnig yfirvinnu. Samkvæmt skýrslu sem heilbrigðisráðuneytið gaf út í október síðastliðinn og mbl fjallaði um eru greiðslur vegna yfirvinnu hjúkrunarfræðinga hér á landi 10-15 prósent af heildargreiðslum til þeirra, sem er töluvert hærra hlutfall en til dæmis á Skáni í Svíþjóð, þar sem það er 2 prósent.

Í fullu starfi en einnig með laun annars staðar

Af þeim hópi starfsmanna sem var í fullu starfi hjá Landsspítalanum árið 2020 þáði tæpur fjórðungur, eða 23,5 prósent, einnig launagreiðslur frá öðrum opinberum stofnunum sem fjármagnaðar eru af ríkinu að hluta eða öllu leyti.

Það er svipað hlutfall og árið 2010, er það var 22,8 prósent, en á síðustu tíu árum hefur hlutfallið verið lægst 20,7 prósent árið 2014 og hæst 28,9 prósent árið 2015. Slíkar launagreiðslur námu samtals rúmum 300 milljónum árið 2020.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert