Byrjað að bólusetja árgang 1983

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fagnaði þegar hún var bólusett nýverið.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fagnaði þegar hún var bólusett nýverið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um allt land vinnur starfsfólk heilbrigðisstofnana að því að bólusetja landsmenn við Covid-19. Mjög misjafnt er eftir landssvæðum hversu vel miðar en það skýrist einkum af mannafla, magni bóluefna og framkvæmd bólusetninga. Á sumum svæðum er byrjað að bólusetja 1981 árganginn og á Akranesi er búið að bólusetja hluta 1983 árgangsins en annars staðar er verið að bólusetja fólk fætt árið 1962 og 1963.

Bætt við klukkan 20:11 - samkvæmt upplýsingum frá lesendum fengu einhverjir fæddir 1984 og 1985 boð í bólusetningu á Akranesi í gær. Tekið skal fram að um afgangsskammta var að ræða og því alls ekki allir í þessum árgöngum bólusettir. 

Á höfuðborgarsvæðinu er byrjað að bólusetja ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára sem munu starfa með börnum á svæðinu í sumar. Þau eru bólusett með Pfizer en það er eina bóluefnið sem hefur fengið markaðsleyfi fyrir þennan aldurshóp á Íslandi. Það eru sveitarfélögin sem tilkynna til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um sumarstarfsmenn í þessum aldurshópi sem eiga að fá bólusetningu, það er eru að vinna á leikja- og íþróttanámskeiðum ofl. í sumar. 

Nú stendur yfir bólusetning gegn Covid-19 á fólki í hópum 7, 8, 9 og 10. Í  þessari viku eru 24 þúsund manns bólusett með fjórum tegundum bóluefna. Um 12 þúsund fá bóluefni Pfizer, nokkuð jöfn skipting í fyrri og seinni bólusetningu. Bóluefni Moderna fá um 7 þúsund manns, með Janssen er verið að bólusetja um fjögur þúsund manns. 

Margir vilja halda sig við AstraZeneca

Moderna-bóluefnið er bara notað á höfuðborgarsvæðinu.
Moderna-bóluefnið er bara notað á höfuðborgarsvæðinu. AFP

76.259 einstaklingar eru nú fullbólusettir á landinu og bólusetning er hafin hjá 82.978 manns. Flestir hafa fengið Pfizer en AstraZeneca skipar annað sætið. Margir þeirra sem fengu AstraZeneca áður en breytingar voru gerðar á bólusetningum með því bóluefni eru að fá seinni skammtinn þessa dagana. Þeir stjórnendur heilbrigðisstofnana sem blaðamaður mbl.is hefur rætt við um landið undanfarna daga segja að svipað hlutfall þeirra sem hefur val um hvort þeir þiggi Pfizer eða AstraZeneca í seinni bólusetningu velji að fá það síðarnefnda. Jafnvel fleiri sem vilja fá aftur það sama – AstraZeneca. 

Þeir sem fengu fyrri skammt­inn af bólu­efni lyfja­fram­leiðand­ans AstraZeneca, og falla utan þeirra hópa sem bólu­efnið var tak­markað við eft­ir að auka­verk­an­ir komu í ljós, geta valið á milli þess að fá seinni skammt­inn frá AstraZeneca eða skammt af mRNA-bólu­efni, þ.e. frá Pfizer eða Moderna.

Fjögur bóluefni eru með markaðsleyfi á Íslandi en Moderna er aðeins notað á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það kemur í mjög stórum einingum til landsins og er þess fyrir utan mjög ljósnæmt. Moderna bóluefnið hefur einu sinni farið á Suðurnesin og á Norðurland en það var mjög snemma í bólusetningarferlinu. Blanda þarf bóluefnið áður en það er gefið og verður að gefa það fljótlega eftir blöndun sem er nákvæmisverk alveg eins og þegar bóluefni Pfizer er gefið. 

Verið að jafna kynjahlutföllin

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. mbl.is/RAX


Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, segir að á Suðurlandi er verið að bólusetja þessa viku með bóluefni Pfizer, AstraZeneca og Janssen.

„Í þessari viku er verið að bjóða starfsfólki grunn- og leikskóla upp á bólusetningu auk þess sem haldið er áfram að bólusetja niður árgangana,“ segir Baldvina.

Eitthvað mismunandi er eftir stöðum hversu hratt miðar niður árgangana en það skýrist meðal annars af tegundum bóluefna og flutningi þeirra. „Það er ekki hægt að bólusetja með Moderna á Suðurlandi vegna þess hversu stórir skammtar koma af því bóluefni þannig að þeir fara bara á þéttbýlustu staðina. Við á landsbyggðinni verðum því aðeins á eftir og sama hvað fólki finnst það pirrandi þá stafar það af því einu að við fáum hreinlega ekki meira bóluefni. Ekki það að við viljum ekki bólusetja jafnt á við aðra þá er því miður ekki hægt að gera neitt við þessu,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Bóluefni Pfizer þarf að blanda fyrirfram og nota strax að …
Bóluefni Pfizer þarf að blanda fyrirfram og nota strax að lokinni blöndun. AFP

Að sögn Baldvinu er verið að jafna kynjahlutföllin við bólusetningar í þessari viku þar sem fleiri karlar en konur voru komnir með fyrri skammtinn af AstraZeneca. Á Selfossi er verið að bólusetja niður í árgang 1970 og jafnvel enn yngra inn á milli en bólusetning er komin styttra á veg annars staðar í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. 

Að sögn Baldvinu er meðal annars verið að bólusetja með seinni skammtinum af AstraZeneca fólk sem eru í svokölluðum frágangshópi, það er konur yngri en 55 ára og karlar yngri en 40 ára (fæddir 1981). Margir af þeim sem eru í frágangshópi hafa viljað þiggja AstraZeneca í seinni bólusetningu líkt og annars staðar á landinu. 

Á Suðurlandi er verið að ljúka við að  bólusetja þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma en þar sem eitthvað er um rangar skráningar, til að mynda ekki rétt símanúmer skráð hjá heilsugæslunni, verður væntanlega boðið upp á opna bólusetningardaga fyrir þessa hópa.

Rífandi gangur síðustu þrjár vikur

Á Selfossi er verið að færa bólusetningar yfir í FSu …
Á Selfossi er verið að færa bólusetningar yfir í FSu í sumar. Bólusetningar verða þó þriðjudag og miðvikudag í Vallaskóla en í FSu á fimmtudag og framvegis í sumar. Bólusett er fyrir Árnessýslu og Rangárvallasýslu á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi

Undanfarnar þrjár vikur hefur miðað vel í bólusetningum á Austurlandi og á ákveðnum stöðum verður búið að bólusetja alla þá sem eru fæddir 1981 og fyrr í vikulok. Jónína Óskarsdóttir fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir að bólusett sé á fjórum stöðum í vikunni: Vopnafirði, Egilsstöðum Eskifirði og Djúpivogi.

Um eitt þúsund eru bólusettir í þessari viku á Austurlandi og flestir þeirra með Pfizer. Eins er bólusett með bóluefni Janssen og AstraZeneca að sögn Jónínu. Á minni stöðum, eins og Vopnafirði og Djúpavogi er verið að klára að bólusetja forgangshópa og alla þá sem eru fæddir 1981 og fyrr. „Við förum sjaldan á þessa litlu staði og klárum þess í stað þá aldurshópa sem er verið að bólusetja á þeim tíma,“ segir Jónína. 

Á Egilsstöðum og Seyðisfirði er verið að klára alla forgangshópa og einnig nokkuð langt niður í aldurshópa. Á Egilsstöðum hafa margar konur verið bólusettar með Pfizer í vikunni og er búið að mestu að bólusetja konur fæddar árið 1977 og eldri. Víða annars staðar er búið að bólusetja konur fæddar 1981 og komið að 1970 árganginum meðal karla á þessu svæði. Ástæðan fyrir því að bólusetning karla er komin styttra á veg er sú að þeir verða bólusettir með AstraZeneca en konur yngri en 55 ára mega ekki fá það bóluefni. 

Jónína tekur undir með starfssystrum sínum annars staðar á landsbyggðinni með bólusetningar; að mörgu sé að hyggja til að láta allt ganga upp. „Hlutfallslega er bólusett meira á landsbyggðinni í hverri viku og það gert á einum til tveimur dögum þannig að við erum mjög sátt,“ segir Jónína.

Allt frá Blönduósi til Þórshafnar

Frá Egilsstöðum.
Frá Egilsstöðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, segir að bólusetningar gangi ágætlega en í þessari viku er verið að bólusetja um 2500 manns. Í næstu viku verða skammtarnir 2.200 talsins, þar af 1.900 af Pfizer.

Í þessari viku er verið að bólusetja fólk sem fékk fyrri skammtinn af Pfizer bóluefni 27.-30. apríl og í seinni bólusetningu hjá þeim sem fengu Astra Zeneca bóluefni fyrir 12 vikum og geta fengið Pfizer í seinni bólusetningu. Guðný segir marga velja að fá AstraZeneca aftur í seinni bólusetningu þrátt fyrir að hafa val þar um. Einnig var haldið áfram með að bólusetja fyrri bólusetningu hjá þeim sem hafa undirliggjandi sjúkdóma og er gert ráð fyrir að fara langt með eða klára þann hóp.

Guðný segir að reynt sé að tryggja að staðan sé svipuð á öllum starfsstöðvum, allt frá Blönduósi til Þórshafnar. „Við reynum að skipta þessu hlutfallslega eftir íbúðafjölda og með það að markmiði að klára forgangshópa á þeim,“ segir Guðný. 

Að sögn Guðnýjar er verið að bólusetja 500 manns með Janssen bóluefninu í þessari viku og þýðir það að sá hópur er fullbólusettur þar sem aðeins þarf einn skammt af því bóluefni.  „Skammtarnir eru notaðir til að bólusetja m.a. leikskólakennara og flug- og skipaáhafnir sem þurfa að fara erlendis en við náum ekki að klára leikskólakennara alls staðar. Á einhverjum stöðum náum við að byrja aðeins á grunnskólakennurum og starfsfólki í félagsþjónustunni,“ segir Guðný og bætir við að haldið verði áfram að bólusetja þá hópa í næstu viku.

Allir á tánum að láta þetta ganga upp

Á Akureyri er bólusett á slökkvistöðinni.
Á Akureyri er bólusett á slökkvistöðinni. Ljósmynd Slökkviliðið á Akureyri

Heilbrigðisstofnun Norðurlands er með sex afhendingarstaði á bóluefni segir Guðný það mjög gott að fá afhent á þeim því þannig hefur tekist að halda bólusetningum nokkuð jafnt. Húsavík sér um að koma bóluefni á staði eins og Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn. Að sögn Guðnýjar hefur verið töluverð vinna að koma starfsfólki og bóluefni á þessa smærri staði. 

Í vikunni kom upp sú staða að þau á Akureyri áttu aukaskammta þannig að allir lögðust á eitt við að koma þeim til annarra staða. Guðný keyrði til að mynda með bóluefni á Blönduós þann dag svo hægt væri að nýta bóluefnið þar en bóluefnið verður að nota innan sex tíma frá því það er blandað. „Þannig að það eru allir á tánum við að láta þetta ganga upp.“

Þegar horft er til árganga er heilsugæslan komin aðeins lengra niður í árgangalistunum á Akureyri en annars staðar á Norðurlandi eða í 1966 árganginn. Það var gert þegar stór sending af AztraZeneca kom norður sem aðeins var hægt að nota í það skiptið á Akureyri segir Guðný. Afgangurinn af þeirri sendingu fór á aðra staði í þessari viku en bólusetning er hafin í árgöngum 1962 til 1964 á öðrum stöðum norðanlands. 

Ljúka bólusetningu áhættuhópa

Ljósmynd/Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Hildur Elísabet Pétursdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, segir að svo virðist sem landsbyggðin sé eitthvað á eftir höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að bólusetningum. 

Erum að klára starfsfólk leikskóla með Pfizer og svo erum við að bólusetja hóp sem fékk AstraZeneca í fyrri bólusetningu og gat valið um hvort það fengi aftur AstraZeneca eða Pfizer í seinni bólusetningu, segir Hildur.

„Okkar tilfinning er að það eru álíka margir sem vilja fá sama bóluefni í seinni bólusetningu. Veit ekki hvað veldur en getur verið að það er ekki ljóst hvað verður með bólusetningarskírteini þó svo að vitað sé að það sé gilt hér á landi er óvíst að svo sé alls staðar,“ segir Hildur. 

Í dag er stór Pfizer dagur bæði á Ísafirði og Patreksfirði og verður lokið við að bólusetja starfsfólk leikskólanna og byrjað á starfsfólki grunnskóla. Eins verður lokið við áhættuhópana.

„Okkur gengur mjög hægt að ljúka við árgangana og erum bara komin í 1962 og 1963,“ segir Hildur en bólusett er á tveimur stöðum á Vestfjörðum. Á Patreksfirði og Ísafirði. Hildur segir að bóluefninu sé skipt mjög hlutfallslega jafnt á milli þeirra. „Við fórum á litlu staðina þegar við vorum að bólusetja eldra fólk en þegar farið var að bólusetja yngri en 70 ára fengum við fólk til okkar, það er á Ísafjörð og Patreksfjörð,“ segir Hildur.

Hafa einfaldlega ekki mannskap

Fólk hefur ekki kvartað undan því enda allt annað nú en þegar verið er að bólusetja fólk um hávetur. „Við höfum einfaldlega heldur ekki mannskap til að fara annað og það er stærsta ástæðan. Hér á Ísafirði erum við að bólusetja í matsal starfsfólks og getum annað allt að 500 manns á dag. Erum ekki með nægt starfsfólk til þess að senda það á smærri staðina með bóluefni. Getan væri miklu minni ef sú leið yrði valin. Ef það væri að koma meira af bóluefni til landsins þá gætum við klárað þetta á tveimur til þremur vikum með því að vinna fram á kvöld,“ segir Hildur og á von á því að það geti reynst erfitt að manna bólusetningar í sumar þegar fólk fer að fara í sumarleyfi. Bólusetningum fylgir ýmislegt sem ekki er á allra færi, svo sem að bóka og skipuleggja, blanda bóluefni og sprauta. „En við þökkum fyrir allt sem við fáum,“ segir Hildur.

Frá Akranesi til Hvammstanga

Umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) er víðfeðmt og starfsstöðvarnar eru átta talsins, allt frá Akranesi til Hvammstanga og búa um 18 þúsund manns á svæðinu. Búið er að bólusetja um átta þúsund manns og verða margir þeirra fullbólusettir í þessari viku og þeirri næstu að sögn Þuru Björk Hreinsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á HVE.

Verið er að ljúka við bólusetningu fólks á aldrinum 18-64 ára sem er með undirliggjandi sjúkdóma og eins starfsfólk í leik- og grunnskólum. Eins er búið að bólusetja framhaldsskólakennara og fólk í öðrum forgangshópum. Á einhverjum starfsstöðvum er verið að bólusetja fólk sem verður fertugt á þessu ári, það er fætt árið 1981, og í gær voru árgangar 1982 og 1983 boðaðir með litlum fyrirvara í bólusetningu á Akranesi. Að sögn Þuru var um afgangsbóluefni að ræða þar sem ekki var góð mæting í bólusetningu á Akranesi í gær.  

Næstu tvær vikur verður einkum horft til að bólusetja á Snæfellsnesi, Búðardag og Hvammstanga til að koma þessum stöðum niður í sömu árganga og búið er að bólusetja á Akranesi segir Þura. 

Mikið álag á litlar heilsugæslustöðvar

Um 24 þúsund eru bólusett í þessari viku.
Um 24 þúsund eru bólusett í þessari viku. Ljósmynd/HVE

Bólusett er á sjö stöðum á Vesturlandi og ekki allir komnir á sama stað segir Þura en að hennar sögn ganga bólusetningar mjög vel og ef eitthvað bæjarfélag er komið skemmra á veg við bólusetningar er það í forgangi vikuna á eftir.

Pfizer bóluefnið er blandað á Akranesi og keyrt út á aðra staði þannig að auðvitað væri hentugra ef allir væru bólusettir á Akranesi en eðlilega vilja íbúar Hvammstanda og Búðardals og fleiri staða fá bólusetningu á sinni heilsugæslustöð segir Þura.

Janssen og AstraZeneca þarf ekki að blanda fyrirfram svo það er hægt að ferja það í glösunum á staðina og sú sem bólusetur í Búðardal fer bæði á Hólmavík og Reykhóla þannig að þetta er ekki bara að blanda á Suðurlandsbraut og gefa í Laugardalshöllinni segir Þura og vísar til þess hvernig bólusett er á höfuðborgarsvæðinu. Eins þarf að telja nákvæmlega skammtana sem fara á hvern stað. Gríðarlegt álag á minni heilsugæslustöðvum og mætti alveg skoða hvort bólusetja eigi alla á Akranesi þegar tíðin er orðin svona góð.

Hafa þurft að hætta við vegna ófærðar

Í tvígang hefur þurft að hætta við bólusetningar vegna ófærðar og snúa til baka með skammta sem áttu að fara í Búðardal og Hvammstanga. „Þá þurftum við að hafa snör handtök í Borgarnesi og á Akranesi og boða fólk í bólusetningu því það þarf að gefa bóluefnið innan sex tíma frá því það er blandað,“ segir Þura.

Spurð út í seinni bólusetningu fólks sem fékk AstraZeneca í fyrri bólusetningu en hefur val í þeirri síðari segir Þura að flestir velji AzraZeneca. Hún segir að fólk í þessum hópi tali sig saman og leiti sér upplýsinga og einna helst veltir fólk fyrir sér hversu langur tími líður á milli bólusetninga. Ekki síst þeir sem eru mikið á ferðinni. Öllum sem eru smeykir eða með vangaveltur er bent á Pfizer en þetta er annars alfarið sett í hendurnar fólki að taka ákvörðun en erum alltaf reiðubúin til að veita upplýsingar sé þess óskað segir hún.

Ungt samfélag á Suðurnesjum

mbl.is/Kristinn Magnússon

Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, segir að vel gangi að bólusetja á Suðurnesjum og í þessari viku er verið að bólusetja fólk fætt 1974 og 1975. Í dag er verið að boða fólk fætt árið 1978 í afgangsskammta.

Ef horft er á töflu yfir bólusetningar á landinu öllu virðist sem Suðurnesin standi öðrum að baki þegar kemur að fjölda bólusettra á hverja 100 þúsund íbúa. Andrea segir að það skýrist af aldurssamsetningu íbúa á svæðinu. „Það var byrjað að bólusetja elstu aldurshópana en við erum svo ungt samfélag,“ segir hún.

Andrea tekur sem dæmi að í elstu árgöngunum séu kannski 50 einstaklingar á Suðurnesjum meðan á Norðurlandi eru þeir um þúsund talsins. 

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fékk töluvert mikið magn af Janssen bóluefninu í þessari viku og því var hægt að fara hratt niður árgangana. „Í síðustu viku vorum við bara búin með 1961 árganginn þannig að við náðum mörgum árgöngum í þessari viku,“ segir Andrea.

Skráning á heilsugæslu fylgir ekki lögheimili

Bólusett er í húsnæði Landhelgisgæslunnar á Ásbrú.
Bólusett er í húsnæði Landhelgisgæslunnar á Ásbrú. Sigurður Bogi Sævarsson

Allir grunnskóla- og leiksskólakennarar eru komnir með fyrri bólusetningu á Suðurnesjum og eins þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.

Andrea segir að mikil umræða hafi farið að stað þegar farið var að bólusetja yngri árganga á höfuðborgarsvæðinu og margir haft samband við þau hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. „Eitt af því sem hefur áhrif á Suðurnesjum er hversu mikið af fólki hefur flutt þangað undanfarin ár. Þegar fólk flytur lögheimili sitt þá fylgir ekki skráning á heilsugæslu með enda slík þjónusta valfrjáls. Þú þarft að skrá þig sjálfur á heilsugæslu og listarnir sem við höfum eru bara með þeim sem eru skráðir á heilsugæsluna okkar, ekki þeir sem búa á svæðinu,“ segir Andrea.

Hún segir að þetta hafi valdið miklum misskilningi víða og ekki síst vegna þess að allir geta fengið þjónustu á heilsugæslustöðva á Suðurnesjum án þess að vera skráðir þar. Því átta ekki allir sig á því að þeir eru enn skráðir hjá heilsugæslustöðvum annars staðar.

Fara langt með listann að 1981

Bóluefnið er viðkvæmt og því skiptir máli hversu fumlaust starfsfólk …
Bóluefnið er viðkvæmt og því skiptir máli hversu fumlaust starfsfólk heilsugæslunnar hefur sinnt þessu vandasama verkefni um allt land. AFP

Í þessari viku er bólusett með Janssen, AstraZeneca og Pfizer á Suðurnesjum. Meirihluti þeirra sem fengu AztraZeneca í fyrri bólusetningu en hafði val um hvort það fengi Pfizer í þeirri síðari hefur valið að fá AstraZeneca einnig í þeirri síðari. Skiptir þar miklu að fólk hefur ekki fundið fyrir neinu eftir fyrri bólusetningu, ekki eru þekktir áhættuþættir í fjölskyldu og einhverjir sem ekki vildu blanda saman bóluefnum.

Í næstu viku er útlit fyrir að aðeins verði bólusett með Pfizer á Suðurnesjum og eiga þau von á stórum hóp í seinni bólusetningu. Eins verður haldið áfram niður aldursröðina þannig að útlit er fyrir að þau fari langt með að klára listann að 1981 segir Andrea.  Mjög gott skipulag er á bólusetningum þar eins og annars  staðar. Við erum svo heppin með húsnæði en Landhelgisgæslan lánaði okkur húsnæði á Ásbrú sem hentar mjög vel fyrir bólusetningar segir Andrea í samtali við mbl.is.

Karlar 1974 og konur 1972

Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar Heilsu­gæsl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, segir að á höfuðborgarsvæðinu er byrjað að bólusetja árgang 1974 hjá körlum og 1972 hjá konum en tekur fram að alls ekki sé búið að bólusetja alla í þessum árgöngum þar sem einkum hefur verið um afgangsskammta að ræða og viðkomandi boðaðir með skömmum fyrirvara. 

Verið er að bólusetja starfsfólk leik- og grunnskóla en ekki næst að klára þá hópa fyrr en eftir tvær vikur þegar næst er von á bóluefni Janssen. Aðrir forgangshópar, það er þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, er búið að boða allflesta, segir Ragnheiður. Hún segir að fólk, sem telur sig falla undir þann hóp, sé enn að gefa sig fram við heilsugæsluna og þær sjái um að koma þeim upplýsingum til þeirra sem annast boðanir í bólusetningar. Eins er verið að bólusetja flug- og skipaáhafnir sem og fólk í viðkvæmri stöðu.

Styttist í foreldra langveikra barna

Vel gengur að bólusetja og er yfir helmingur þeirra sem …
Vel gengur að bólusetja og er yfir helmingur þeirra sem verða bólusettir komnir með að minnsta kosti fyrri skammt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir að enn eigi eftir að klára að bólusetja foreldra langveikra barna og það hefur reynst flókið persónuverndarmál sem verið er að leysa. Við erum ekki búin að fá þá lista frá embætti landlæknis en eigum von á því að það verði í þessari viku eða næstu,“ segir Ragnheiður.

Líkt og annars staðar á landinu hefur verið töluvert um að fólk sem hefur val hafi viljað fá seinni skammtinn af AstraZeneca. Í næstu viku verða samhliða dagar þar sem þessum hóp verður boðið að koma hvorn daginn sem er, það er fólk sem fékk fyrri skammtinn af AstraZeneca fyrir tólf vikum. Bólusett verður með Pfizer annan daginn og AstraZeneca hinn daginn. Ragnheiður segir að ekki liggi nákvæmlega fyrir hlutfallið á milli en svo virðist sem fleiri en færri velji AstraZeneca af þeim sem eru búnir að fá báða skammtana án þess að hún vilji fullyrða svo um.

Slemival og yngri en 18 ára

Á miðvikudag verður bólusett með 7.700 skömmtum af Pfizer í Laugardalshöllinni og rúmlega þrjú þúsund skammta af AstraZenca og þar er bara um seinni bólusetningu að ræða.

Að sögn Ragnheiðar verður byrjað á slembivali í bólusetningar í næstu viku en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig verði staðið að því ásamt að ungmenni 16-18 ára sem vinna með börnum í sumar verða boðuð í bólusetningu með Pfizer. Þegar kemur að slembivali á það við alla þá sem eru í hópi 10 sem eru einfaldlega aðrir en þeir sem tilheyra níu fyrstu hópunum.

Ragnheiður á von á því að það verði dregið um árganga, bæði fyrir karla og konur, þannig að kannski fái konur fæddar árið 1982 boð í bólusetningu en karlar fæddir eitthvað annað ár, til dæmis 1993. Þess ber að geta að þessi ártöl eru valin af handahófi enda ekki búið að taka ákvörðun um hvernig verður nákvæmlega staðið að tilviljanakenndum bólusetningum.

Á covid.is segir svo um hóp 10: Allir aðrir sem óska bólusetningar. Forgangsröðun innan hóps möguleg þegar bólusetning annarra hópa langt komin, t.d. eftir landsvæðum m.t.t. Covid-19 útbreiðslu og hlutfalli áður bólusettra á svæðinu.

Boðunarleið: Listi skilgreindur út frá Þjóðskrá, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi en einnig verður auglýst hvar og hvenær bólusetning býðst fyrir þá sem ekki fá boð með sms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert