Ekki nóg að setja lög um málefni barna

Fundur UNICEF bar yfirskriftina „getur Ísland orðið fyrirmynd í málefnum …
Fundur UNICEF bar yfirskriftina „getur Ísland orðið fyrirmynd í málefnum barna?“ mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svarið er já, það er gott að vera barn á Íslandi en við getum tvímælalaust gert betur,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra á opnum fundi UNICEF um réttindi barna á Íslandi sem bar yfirskriftina „Getur Ísland orðið fyrirmynd í málefnum barna?“

Á fundinum í dag hélt meðal annars Sandie Blanchet, yfirmaður skrifstofu UNICEF í Brussel, erindi um nýja stefnu Evrópusambandsins er varðar réttindi barna. Fyrir nýju stefnuna var álit um tíu þúsund barna í 27 löndum Evrópusambandsins leitað og segir Sandie þetta vera í fyrsta skipti sem Evrópusambandið leitar ráðgjafa barna við mótun opinberar stefnu. Stefnan verður opinberlega innleidd hjá Evrópusambandinu í október.

Helstu breytinguna segir Sandie vera að börn eigi rétt á að hafa áhrif á stefnumótun og breytingar sem þau varðar.

„Þau hafa rödd og rétt til þess að sitja við borðið.“

Þessi áherslubreyting kom einnig fram í erindi Hjördísar Evu Þórðardóttur, sérfræðings félagsmálaráðuneytisins, um stefnu íslenskra stjórnvalda um Barnvænt Ísland sem liggur fyrir Alþingi.

Nýjar áherslubreytingar kveða á markvissari leit eftir sjónarmiðum barna.
Nýjar áherslubreytingar kveða á markvissari leit eftir sjónarmiðum barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Barnvænt Ísland er stefna og aðgerðaáætlun um markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Um 800 börn um allt land voru fengin til þess að leggja sín sjónarmið inn í þessa stefnu.

„Við höfum ekki verið nógu markviss í því að leita eftir sjónarmiðum barna,“ sagði Hjördís og nefnir þá að vettvangurinn hefur heldur ekki verið til staðar. Ein stærsta aðgerðin í stefnunni er að koma á vettvangi þar sem börn hvaðan af á landinu geti komið málefnum sínum á framfæri.

Tryggja að fólki þekki réttindi barna

Í lok fundarins sátu fulltrúar allra flokka á þingi fyrir svörum um stefnu stjórnvalda til málefna barna. Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagði að stærstu áskoranir sem væru í vegi fyrir réttindum barna væri þekking og viðhorf á réttindum þeirra.

„Það er ekki nóg að setja lög og samþykkja stefnur um málefni barna heldur þarf að tryggja að fólk þekki þau og virði,“ sagði Áslaug. Þá benti Ásmundur Einar á að helstu áskoranir séu í velferðarkerfinu og í þjónustu innan þess til barna.

Ríkisstjórnin í ruglinu

Brottvísun flóttafólks og þá sérstaklega barna var í brennidepli en í því sambandi gagnrýndi Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, stjórnvöld fyrir að virða ekki skoðanir barna til fulls. Hann sagði áherslur íslenskra barna og ungmenna vera að Ísland ætti að sýna flóttafólki stuðning.

„Íslensk stjórnvöld, þrátt fyrir það sem UNICEF hefur sagt og þrátt fyrir það sem börn hafa sagt, eru að senda flóttafólk í aðstæður sem geta ekki virt mannréttindi þeirra,“ sagði Andrés og bætti við að það dugi ekki að samþykkja stefnur um málefni barna ef aðrar stefnur taki ekki mið af því líka.

„Það er verið að flækja einfalt mál of mikið. Þarf ekki djúpt hagsmunamat eða mikla stefnumörkun til þess að átta sig á því að ríkisstjórnin og stofnanir hennar eru bara í ruglinu með því að endursenda flóttafólk til Grikklands.“

Áslaug Arna brást við ummælum Andrésar með því að nefna að búið væri að vinna í tillögum til úrbóta þar sem er farið yfir börn á flótta í takti við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Þá nefndi hún helst tillögur um að fjölga kvótaflóttafólki og sagði að aldrei hafi verið tekið á móti fleirum en í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert