Unnur Freyja Víðisdóttir
Eigendur jarðarinnar Hrauns hófu í gær að innheimta gjald á bílastæðinu við gönguleiðina að eldgosinu í Fagradalsfjalli.
Fram kemur á skiltum, sem sett hafa verið upp á nokkrum stöðum á veginum sem liggur að bílastæðinu, að það kosti 1.000 krónur að leggja bíl á stæðinu í heilan dag. Eftirlit með gjaldskyldunni er þó ekki hafið.
Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi A. Jónssyni, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, hefur þessi gjaldtaka á bílastæðinu ekki komið til kasta stofnunarinnar. Kveðst hann ekki eiga von á að stofnunin muni skoða lögmæti hennar. Ólafur segir að Umhverfisstofnun hafi unnið út frá þeirri meginafstöðu að ekki eigi að skerða almannarétt með gjaldtöku en óskað hafi verið eftir skýrari afstöðu löggjafans varðandi heimildir landeigenda til að taka gjald fyrir valkvæða þjónustu.
Gestir á svæðinu í gær tóku gjaldinu vel. „Mér finnst það bara sjálfsagt af þeim að láta okkur borga fyrir að nota svæðið sitt. Ætli þetta sé ekki bara eins og að leggja í bílastæði í Reykjavík?“ sagði Grétar Karlsson sem var að leggja af stað í göngu að gosinu.