Frá því að uppkeyrsla gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJU hófst í ágúst 2020 hefur metansöfnun við niðurbrot lífræns úrgangs í metangas og moltu gengið vel. Mælingar Sorpu hafa hins vegar leitt í ljós að hráefnið sem berst til stöðvarinnar er ekki nægjanlega hreint.
Það hefur áhrif á hreinleika moltunnar og hefur hún af þeim sökum aðeins verið nýtt við landgræðslu á urðunarstað í Álfsnesi. Lausn vandans er að hefja sérsöfnun á lífrænum úrgangi, að því er kemur fram í tilkynningu frá Sorpu.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem standa að Sorpu: Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík, og Seltjarnarnes vinna nú að samræmingu á úrgangsflokkun og sérsöfnun lífræns úrgangs.
„Til skoðunar er fjögurra tunnu kerfi við dyr allra heimila með sérsöfnum fyrir pappír, plast og málma, lífrænan og blandaðan úrgang,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, i tilkynningunni og bætir við að það sé mikið fagnaðarefni að stefnt sé að sérsöfnun lífræns úrgangs.
„Eitt af því sem við höfum lært í þessu tilraunaferli er að vélræna flokkunin í Móttöku- og flokkunarstöð Sorpu í Gufunesi nær ekki að hreinsa frá plast og gler að fullu. Þess vegna er efnið sem berst til GAJU með of hátt hlutfall af plasti og gleri. Í tilraunamoltu hafa greinst um 1,7% plastefni og 5,5% af gleri og því hefur hún ekki náð að uppfylla hreinleikakröfur og hefur aðeins verið nýtt til landgræðslu á urðunarstaðnum í Álfsnesi,“ segir Jón Viggó.
Gæði tilraunamoltunnar eru að öðru leyti í samræmi við væntingar og ljóst að allir vinnsluferlar í GAJU virka sem skyldi, segir í tilkynningunni.
GAJA meðhöndlar lífrænan úrgang og hann brýtur niður í metangas og moltu í stað þess að urða hann en urðun lífræns úrgangs hefur í för með sér mikla losun gróðurhúslofttegunda. „Meðhöndlun úrgangs í GAJU kemur því í veg fyrir verulega losun gróðurhúsaloftegunda. Þegar stöðin hefur náð fullum afköstum á rekstur hennar, ásamt því að hætta urðun á lífrænum og brennanlegum úrgangi, að draga úr árlegri losun gróðurhúsalofttegunda um tugi þúsunda tonna,“ segir Jón Viggó.