Fjölmennt samkvæmi í Guðmundarlundi

Guðmundarlundur er í Vatnsendahverfi í Kópavogi.
Guðmundarlundur er í Vatnsendahverfi í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan fékk tilkynningu um fjölmennt unglingasamkvæmi í Guðmundarlundi í Kópavoginum skömmu fyrir miðnætti í gær. Talið er að um 200 unglingar hafi verið á svæðinu og margar bifreiðar.

Unglingarnir voru fljótir að yfirgefa svæðið er lögregla kom á vettvang en Guðmundarlundur er vinsælt útivistarsvæði í Kópavoginum. Skógræktarfélag Kópavogs á og rekur lundinn. Þar hafa meðal annars kviknað gróðureldar í þurrkunum að undanförnu.

Lögreglan handtók konu í nótt sem var í annarlegu ástandi í miðborginni. Hún fór ekki að fyrirmælum lögreglu og reyndi ítrekað að sparka í lögreglumenn. Konan er vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Fimm ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. Einn þeirra var stöðvaður í Laugardalnum grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. 

Þrír voru stöðvaðir í Hafnarfirði í gærkvöldi. Einn þeirra er grunaður um ölvun við akstur og akstur án ökuréttinda, þ.e. réttindi hans voru útrunnin. Annar þeirra er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna og sá þriðji fyrir ölvunarakstur. Einn var síðan stöðvaður í Mosfellsbæ grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert