Heilmikil hrauná opnaðist aftan við varnargarðinn

Hraunelfur í Geldingadölum í apríl.
Hraunelfur í Geldingadölum í apríl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilmikil hrauná opnaðist rétt aftan við eystri varnargarðinn á Fagradalsfjalli um hádegisbil í dag. Ljóst er að farvegir neðanjarðar eru að veita bráð að jaðri hraunbreiðunnar úr tjörninni ofar í hrauninu.

Þetta kemur fram í facebookfærslu eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.

„Meginhraunáin úr gígnum liggur til austurs úr Geldingadölum yfir í nafnlausa dalinn. Hraunáin liggur þar mun hærra uppi en hraunjaðarinn við varnargarðana. Því er ljóst að hraunjaðarinn mun einungis halda áfram að þykkna og skríða fram á við á meðan þær aðstæður eru fyrir hendi,“ segir í færslunni.

„Svona undanhlaup eins og nú eru í gangi koma því ekki á óvart. Þegar spólað er til baka í vefmyndavél RÚV má greinilega sjá hvernig hraunjaðarinn við varnargarðinn lyftist upp nú fyrir hádegi, áður en hraunbráðin braut sér loks leið út úr jaðrinum.“

Hraunið liggur upp að varnargarðinum.
Hraunið liggur upp að varnargarðinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppfært kl. 13:44

Að sögn Boga Adolfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, stafar engin hætta af hraunánni og hefur hún engin áhrif á vinnu á svæðinu.

„Mér skilst að þetta sé ekki neitt sem við þurfum að hafa áhyggjur af eins og er. Garðarnir halda og allt slíkt. Þótt maður viti ekki allt sem gerist á hverju augnabliki þá er alltaf fylgst með öllu,“ segir Bogi í samtali við blaðamann mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert