Hinn nýi dráttarbátur Faxaflóahafna, Magni, er á heimleið og er væntanlegur til Reykjavíkur á morgun, föstudag. Magni hefur verið til viðgerða í Hollandi í tæpt ár.
Magni kom nýr til Reykjavíkurhafnar 27. febrúar 2020 og var þar með öflugasti og fullkomnasti dráttarbátur landsins en kaupverð bátsins var tæplega 1.200 milljónir króna. Fljótlega kom þó í ljós að ekki var allt með felldu varðandi virkni bátsins. Upp komu alvarlegir ágallar sem reynt var að vinna bót á af fulltrúum Damen, sem smíðaði bátinn, og sendir voru til Íslands.
„Sökum aðstæðna vegna heimsfaraldurs ásamt því hversu alvarlegir ágallar höfðu komið fram var tekin sú ákvörðun að sigla Magna til Hollands 9. júlí 2020, þar sem aðstæður voru taldar betri þar til þeirra viðgerða sem þörf var á,“ segir í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna.