Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands eru reiðubúnir til að vinna saman þrátt fyrir að margt skilji ríkin að. Um er að ræða fyrsta fund þeirra Sergei Lavrov og Antony Blinken frá því ríkisstjórn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, var skipuð fyrr á árinu.
Lavrov lýsti viðræðunum í Reykjavík sem uppbyggilegum en tilgangur þeirra var meðal annars að undirbyggja mögulegan fund Biden og Valdimír Pútín, forseta Rússlands.
Það er þörf á því að yfirvinna það óheilbrigða ástand sem ríkir í samskiptum Moskvu og Washington, sagði Lavrov við fréttamenn í gærkvöldi.
Blinken lýsti miklum áhyggjum á veru rússneskra hermanna við landamæri Úkraínu þrátt fyrir að Rússar hafi tilkynnt um brotthvarf þeirra. Jafnframt gagnrýndi Blinken meðferðina á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní en bandarísk yfirvöld hafa verulegar áhyggjur af heilsu hans í fangelsinu. AFP-fréttastofan fjallaði um fundinn í nótt sem og margir erlendir fjölmiðlar.
Bandarískir embættismenn sem ræddu við fréttamenn í gærkvöldi segja að fundurinn hafi verið uppbyggilegur en ekkert stórt hafi komið þar fram.
Fundurinn er haldinn í tilefni fundar norðurskautsráðsins sem nú fer fram á Íslandi og markar endalok formennsku Íslands í ráðinu. Rússar taka við formennsku í ráðinu af Íslendingum. Blinken hefur verið hér á landi síðan á mánudag en Lavrov kom til landsins síðdegis í gær.