Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segist ætla að leita friðsamlegra lausna á ágreiningsefnum sem kunna að koma upp innan Norðurskautsráðsins, hann vilji þó auka samstarf þjóðanna í varnarmálum. Þetta kom fram á blaðamannafundi þeirra Lavrovs og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í Hörpu í dag.
Lavrov sagði Norðurskautsráðið óháðan og ópólitískan samstarfsvettvang. Ráðið væri einstakt að því leiti að markmið þess væri að finna sameiginlegar lausnir á vandamálum. Starfið byggðist á tilteknum samþykktum og skjölum, ágreiningar yrðu leystir í samræmi við efni þeirra og án þess að bjóða ríkjum afarkosti.
Ísland hefði viðhaldið þeirri hefð sameiningar og sáttamiðlunar með formennsku sinni og Rússland vonist til að halda þeirri línu. Lavrov kvaðst þó ósáttur með hernaðarbrölt við landamæri Rússlands og sagði meðlimi NATO áhugasama um Norðurhvelið.
Hann stakk upp á því að virkja samskipti milli Rússlands og annarra norðurskautslanda í varnarmálum en reglulegir fundir herforingja þessara landa voru lagðir af árið 2014 í kjölfar innrásar Rússlandshers í Krímskaga.
Hann kvað vestrænar þjóðir í kjölfar þess hafa grafið undar ýmsum sameiginlegum varnarráðstöfunum þjóðanna. Þó hann teldi ólíklegt að þær væru áhugasamar um að endurvekja slíkt samstarf segir hann Rússa þó ætla að vinna að því. Það væri meðal markmiðanna í formannstíð þeirra.
Flestum spurningum fundarins var beint að Lavrov og sneru að varnarmálum Rússlands. Lavrov var stórorður í aðdraganda fundarins,
„Allir vita að þetta er okkar svæði, okkar land. Við berum ábyrgð á Norðurskautsströndinni, allt sem rússneska ríkið gerir þarna er algjörlega lögmætt.“ var haft eftir honum af fréttaveitunni AFP áður en hann kom til landsins.
Aðspurð um þessi ummæli hans sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ljóst að með þessu væri Lavrov að reyna að marka sér stöðu fyrir fundinn. Norðurskautið sé okkar allra og því hvíldi skylda á ráðinu til að halda spennu þar í lágmarki. Þetta kom fram í samtali hennar við mbl.is.