Taugaendar í handleggjum Guðmundar Felix Grétarssonar, sem fékk grædda á sig handleggi í byrjun árs, fyrstur manna, hafa vaxið mun hraðar en gert var ráð fyrir og eru nú komnir niður að olnbogum. Læknar bjuggust við því að það tæki heilt ár fyrir taugaendana að vaxa svo langt niður, en ekki örfáa mánuði eins og raunin var. Guðmundur stefnir á að geta hreyft einhvern hluta handleggjanna fyrir sumarlok og er bjartsýnn á framhaldið.
„Þetta er búið að ganga upp og ofan. Ég fékk blóðtappa í lærið, hendurnar á mér bólgnuðu allar út, ég fékk útbrot og líkaminn minn hafnaði höndunum. En þetta gekk allt til baka. Ég er búinn að losna við þennan blóðtappa, bólgurnar eru farnar úr handleggjunum og útbrotin eru nánast horfin,“ segir Guðmundur Felix.
„Það sem er geggjaðast við þetta er það að þegar við ákváðum að láta verða af þessari aðgerð er að þá var miðað við ákveðin meðaltöl. Eitt af þeim var að taugarnar myndu vaxa um einn millimetra á dag. Miðað við það meðaltal átti ég að vera kominn með einhverjar taugar niður að olnboga eftir ár og út í fingur eftir tvö ár. Ég er strax kominn með taugar báðum megin niður að olnbogum og ég fann taugavirkni við úlnliðinn á mér hægra megin í [fyrradag]. Þetta eru stofnarnir, ég er ekki farinn að geta hreyft vöðvana eða fengið tilfinningu en taugastofnarnir rjúka niður.“
Þegar taugarnar eru komnar á sinn stað fara að vaxa út úr þeim eins konar greinar inn í vöðva og húð. Því fyrr sem það gerist, því betra.
„Miðað við þennan vöxt er þetta mun styttra ferli en við lögðum upp með og mikið vænlegra til árangurs líka. Við héldum að ef ég fengi ekki taugavirkni í hendurnar fyrr en eftir tvö ár og þá væru þær orðnar svo illa rýrnaðar að það væri erfitt að bjarga þeim en ef þessi hraði vöxtur verður raunin þá er það ekki einu sinni vandamál,“ segir Guðmundur Felix sem telur að tilefni sé til mikillar bjartsýni.
„Ég hef reyndar alltaf verið bjartsýnn og sagði [læknunum] áður en ég fór í aðgerðina að ég byggist við mikið meiri árangri en þeir þó ég myndi sætta mig við hvað sem er. Þetta er reyndar mun meiri árangur en ég hefði þorað að vona sjálfur, að þetta gerðist svona hratt,“ segir Guðmundur Felix.
„Ég ætla að vera farinn að hreyfa eitthvað fyrir sumarlok.“
Ekki er vitað hvers vegna taugaendar Guðmundar Felix vaxa mun hraðar en gerist almennt. Þeir vaxa aðeins hægar í vinstri handlegg hans en vöxturinn þar er almennt tveimur til þremur vikum hægari en í hægri handlegg.
„Svo erum við núna bara að vona að þetta gangi vel og fari að fara út í vöðvana vegna þess að það eru enn svolitlir vöðvar eftir á handleggjunum og ef ég get fengið, þó það væri ekki nema einhverja pínulitla, virkni í þessa vöðva þá er ég strax farinn að viðhalda þeim og get þá jafnvel byggt þá upp í framtíðinni.“
Eins og áður segir er Guðmundur Felix ekki farinn að finna fyrir handleggjunum sjálfum og hefur ekki getað hreyft þá enn sem komið er. Hann finnur þó fyrir tauginni sjálfri.
„Þetta er svolítið eins og þegar maður slær á vitlausa beinið og það kemur svona straumur. Ég fæ þannig þegar ég pikka í handlegginn. Svo er það sem vantar upp á, að þessar greinar komi út.“
Guðmundur Felix er enn í stífri endurhæfingu fimm daga vikunnar. Hann mætir snemma á morgnanna og fer síðdegis. Hann segir það búið að vera strembið.
„Mig langar svo að komast í sumarfrí og við höfum verið að ræða það að þau sleppi mér í tvær vikur, svo fremi sem ég er innan Frakklands og get komið mér til baka á tiltölulega skömmum tíma, ef eitthvað kemur upp á. Að geta komist í smá frí og gera ekki neitt í tvær vikur væri alveg dásamlegt.“
Sem stendur getur Guðmundur Felix þó ekki farið út fyrir Frakkland.
„Fyrstu sex mánuðirnir eru alltaf mjög krítískir,“ segir Guðmundur Felix sem langar þó afar mikið að komast til Íslands bráðlega og hitta barnabörnin. Hann stefnir á að koma til landsins um jólin.
Eins og mbl.is greindi frá í lok aprílmálaðar ætlar Guðmundur Felix að nýta sér endurhæfingartækni sem felst í sýndarveruleika, í samstarfi við góðgerðarsamtökin Góðvild. Með tækninni getur Guðmundur Felix séð sig hreyfa handleggina í gegnum sýndarveruleikagleraugu. Guðmundur Felix segir tæknina magnaða en hann sér fram á að byrja að nota hana á næstunni. Í hefðbundnu endurhæfingunni er svipuð, en ekki jafn kraftmikil, tækni notuð þar sem hann sér hendurnar hreyfast á skjá.
„Það fríkaða við það er að þegar höndin sem er á skjánum snýst aðeins þá finn ég það. Þetta blekkir heilann alveg. Þessi gleraugu eru byggð á svipuðu nema bara á sterum,“ segir Guðmundur Felix.
Önnur heimildarmynd er í vinnslu um ferli Guðmundar Felix en Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson standa að henni. Þeir sköpuðu myndina Nýjar hendur – Innan seilingar um Guðmund Felix, áður en til handleggjaágræðslu kom.
„Við Sylwia [Gretarsson Nowakowska, eiginkona Guðmundar] höfum svolítið verið að taka upp hérna í endurhæfingunni. Þeir eiga náttúrulega myndefni af allri aðgerðinni. Hún verður ekki við hæfi allra, þessi heimildarmynd,“ segir Guðmundur Felix.
Þá hefur írski fjölmiðillinn RTÉ skapað heimildarútvarpsþátt um Guðmund Felix og er fyrsti hlutinn á leið á keppni í New York. Síðari hlutinn er í vinnslu.