Alls voru tilkynnt tjón vegna 14 tjónsatburða til Náttúruhamfaratrygginga Íslands á árinu 2020. Um er að ræða óvenjumarga atburði miðað við meðalár, en frá árinu 1987 hafa að meðaltali verið sjö tjónsatburðir á ári.
Níu tjónsatburðir leiddu til útborgunar tjónabóta árið 2020. Á meðal þeirra eru vatnsflóð í Hvítá í janúar á síðasta ári, snjóflóð á Flateyri, jarðskjálfti við Krýsuvík og aurskriður á Seyðisfirði.
Langmest var tjónið í aurskriðunum á Seyðisfirði í desember síðastliðnum, að því er fram kemur í ársskýrslu NTÍ. Þar hafa verið metnar tjónabætur að fjárhæð um 930 milljónir króna og er uppgjöri lokið á um 92% þeirra. Stærsti tjónsatburður í sögu stofnunarinnar er jarðskjálftinn sem varð á Suðurlandi 2008. Heildargreiðslur vegna hans, framreiknaðar með byggingarvísitölu til ársloka 2020, nema um 16 milljörðum króna.
Tilkynnt tjónamál voru alls 212 og leiddi tilkynning til bóta í 91 tilviki. Þeir tjónsatburðir sem vísað var til í tilkynningum en voru ekki taldir hafa valdið meintum tjónum voru sjávarflóð á Granda 7. janúar 2020, sjávarflóð í Eyjafirði 14. febrúar 2020, jarðskjálfti á Reykjanesi 12. mars 2020 og jarðskjálfti á Reykjanesi 26. ágúst 2020.
Heildarhagnaður NTÍ árið 2020 nam 6 milljörðum króna, samanborið við 5,6 milljarða árið 2019. Fjárfestingatekjur bera stærstan hluta hagnaðarins, eða 4,6 milljarða. Iðgjaldatekjur jukust um rúmlega 11% á milli ára sem er svipuð aukning og á milli áranna 2018 og 2019. Rekstrarkostnaður jókst um rúmlega 10% á árinu 2020.