Mikill hugur er í nýjum eigendum trjáplöntustöðvarinnar Kvista í Reykholti í Bláskógabyggð. Þeir hafa pantað nýtt gróðurhús sem gerir þeim kleift að rækta tvöfalt fleiri trjáplöntur.
Ein af stærri trjáplöntustöðvum landsins, Kvistar í Reykholti, var til sölu í nokkurn tíma. Hólmfríður Geirsdóttir og Steinar Ástráður Jensen hafa verið að draga saman seglin og vildu hætta í ræktun á trjáplöntun sem þau hafa stundað í tuttugu ár. Þau einbeita sér nú að ræktun jarðarberja í annarri stöð sem þau eiga.
„Við skógarbændur höfum verið að líta í kringum okkur eftir möguleikum til að koma á úrvinnslu á trjáviði. Það hefur ekki gengið eftir, enn sem komið er. Við sjáum hins vegar tækifæri til að hér megi koma upp slíkri vinnslu, samhliða rekstri trjáplöntuframleiðslunnar,“ segir María E. Ingvadóttir, fyrrverandi formaður Félags skógareigenda á Suðurlandi, en hún er formaður stjórnar Kvistabæjar sem er nýtt nafn stöðvarinnar.
Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir María að þetta sé mikil fjárfesting og þótt skógarbændur kunni að rækta skóg hafi þurft annað fólk til að annast uppeldið. Þau hafi því byrjað á því að ráða ræktunarstjóra, Aldísi Björk Sigurðardóttur. Hún komi úr fjölskyldu skógarbænda og hafi þau komið með þeim í verkefnið. Einnig er Hólmfríður Geirsdóttir hluthafi í félaginu og leiðbeinir nýjum eigendum og starfsfólki. Eigendur eru átta einstaklingar sem allir tengjast skógrækt með einhverjum hætti. Þeir stofnuðu nýtt félag um kaupin.