Undirbúningur Sundabrúar yfir Kleppsvík er hafinn hjá Vegagerðinni og Faxaflóahöfnum. Brúin verður sem kunnugt er fyrsti áfangi Sundabrautarinnar.
„Það er verið að ljúka vinnu við samgöngulíkan og félags- og hagfræðilega greiningu sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir í júní. Í kjölfarið er svo gert ráð fyrir að óska eftir breytingu á aðalskipulagi,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Hann segir að Vegagerðin hafi verið í viðræðum við Faxaflóahafnir varðandi nauðsynlegan undirbúning.
Sundabrúin mun hafa mikil áhrif á rekstur Sundahafnar. Á síðasta fundi stjórnar Faxaflóahafna kynnti Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri viðskiptasviðs, verkefni sem snýr að þróun Sundahafnar til framtíðar. Mikilvægt er að vel takist til, því um er að ræða helstu vöruhöfn Íslands.
„Framkvæmd við Sundabraut kallar á vinnu við skipulag og þróun hafnarsvæðisins. Faxaflóahafnir eru í viðræðum við erlenda ráðgjafa um aðkomu að verkefninu. Verkefnið verður jafnframt unnið með samtali við hagaðila,“ segir í fundargerðinni. Það mun skýrast á næstu vikum við hvaða erlenda sérfræðinga verður samið um verkefnið, segir Gunnar Tryggvason í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.