Þóra Birna Ingvarsdóttir
Þrátt fyrir tilslakanir sem kynntar voru í dag verður engin breyting á grímuskyldu í strætisvögnum. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar. Bæði vagnstjórar og viðskiptavinir þurfa því að bera grímu áfram.
Börn fædd 2005 og yngri eru þó áfram undanþegin grímuskyldu.
Á þetta jafnt við ferðir innan höfuðborgarsvæðisins og á landsbyggðinni.
Grímuskyldan nær einnig til þeirra sem eru bólusettir eða með mótefni. Er það ákvörðun fyrirtækisins Strætó en í reglugerðinni er gert ráð fyrir að þessir einstaklingar sem og þeir sem geta ekki borið grímu vegna skorts á skilningi eða þroska, geti framvísað vottorði um undanþágu grímuskyldu auk skilríkja.
"Þetta snýst um framkvæmdina á greiðslu fargjaldsins," sagði Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó bs. en með því að krefjast þess að allir noti grímur er verið að flýta fyrir afgreiðslunni og koma í veg fyrir tafir á ferðatímanum. Einnig vill Strætó forðast flækjustigið sem gæti skapast af framvísun vottorða við mat á því hvort vottorðið sé löglegt eða ekki, enda hafa vagnstjórar ekki tól til að meta lögmæti þeirra.
"Þetta er í raun bara skref sem við tókum sérstaklega þar til það kemur eitthvað einfalt löggilt vottorð sem allir með mótefni geta flaggað," bætti Guðmundur við.
Strætó biður viðskiptavini að nýta sér ekki strætisvagna ef þeir finna fyrir flensueinkennum.