Edda Falak er 29 ára viðskiptafræðingur, íþróttakona og áhrifavaldur. Hún heldur uppi hlaðvarpinu Eigin konur ásamt Fjólu Sigurðardóttur sem vakið hefur mikla athygli. Markmið þeirra með hlaðvarpinu er að valdefla konur, hvetja til umburðarlyndis og draga úr fordómum í samfélaginu.
Edda er gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálsþætti dagsins. Í brotinu sem fylgir fréttinni ræðir hún um þetta dæmi um viðhorf læknisins sem sé alls ekki boðlegt á meðal fólks í starfsstéttinni sem konur þurfi að leita til eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Enda eigi siðareglur lækna að koma í veg fyrir að slík viðhorf séu viðruð.
Edda hefur verið óhrædd við að láta í sér heyra og staðið þétt með þolendum ofbeldis og bent á margt sem hún telur að mætti betur fara. Edda er sjálf fórnarlamb ofbeldis en henni var nauðgað 17 ára gamalli af þjóðþekktum tónlistarmanni. Edda telur að sú lífsreynsla hjálpi henni í dag við að styðja við stúlkur í svipuðum sporum.
Edda fagnar því að karlmenn stígi fram og játi að þeir hafi farið yfir mörk en telur að þrátt fyrir að líklega flestir telji sig á einhverjum tímapunkti hafa farið yfir mörk þá sé munur á því og að nauðga. Í þeim tilfellum eigi ekki við að biðjast afsökunar opinberlega heldur þarf sá einstaklingur að leita sér hjálpar.
Hér að ofan má sjá brot úr viðtalinu en Dagmál eru aðgengileg áskrifendum Morgunblaðsins hér. Einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.