Heimsmeistarar í skerðingum?

Tryggingastofnun ríkisins
Tryggingastofnun ríkisins

Ísland fer nærri því að slá heimsmet í skerðingum innan almannatryggingakerfisins. Skerðingarnar koma fram í því að útgjöld hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna eru óvenju lág. Í dag glíma 25-50% íslenskra lífeyrisþega við lágtekjuvanda, eftir því hvar lágtekjumörk eru dregin. Þetta kemur fram í skýrslu  sem Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, og Stefán Andri Stefánsson gerðu fyrir Eflingu. 

Réttindi á almennum markaði eru lakari en í opinbera geiranum. Í skýrslunni eru færð ýmis rök fyrir því að hámarkslífeyrir almannatrygginga sé of lágur.

Skerðingar greiðslna almannatrygginga byrja við of lágar greiðslur frá lífeyrissjóðum að mati Stefáns og Stefáns Andra. Leiðir þetta af lágu frítekjumarki og veldur því að skyldusparnaður í lífeyrissjóði fer að miklu leyti í lækkun á útgjöldum ríkisins til almannatrygginga. Skilar hann sér því ekki nægilega til kjarabóta fyrir lífeyrisþegana sjálfa.

Ríkið helsti lífeyrisþegi lífeyrissjóðanna

Segja má að ríkið sé, með óbeinum hætti, helsti lífeyrisþegi lífeyrissjóðanna en 70-80% af auknum tekjum frá lífeyrissjóðunum renna til ríkisins. Stafar þetta af þeim 20-26% tekjuskatti sem ríkið leggur ofan á greiddan lífeyri. Ljóst er einnig að skattbyrði lífeyrisþega með lágar heildartekjur hefur stóraukist síðustu ár.

Skýrslan laut helst að því að skoða virkni og samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þá var sýnt fram á hvernig kjörum kerfið skili í raun lífeyrisþegum nútímans og lífeyrisþegum næstu ára.

Leggja til hærri frítekjumörk

Stefán og Stefán Andri leggja til, á grundvelli þessarar greiningar, að frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðum verði hækkað upp í minnst 100.000 kr. á mánuði en í dag stendur það í 25.000 kr.

Þeir vilja sjá að hámarks lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins hækki úr 333.258 kr. upp í 375.000 kr. á mánuði fyrir einstaklinga, og þá samsvarandi hækkun fyrir sambýlisfólk.

Einnig vilja þeir samræma lífeyriskjör öryrkja og ellilífeyrisþega og að frítekjumark vegna atvinnutekna verði aldrei lægra en sem nemur lámarkslaunum á vinnumarkaði. Í samtali við mbl.is benti Stefán á, til samanburðar, að hvorki Noregur né Danmörk væru með svona frítekjumörk, en þar geta lífeyrisþegar unnið eins mikið og þeir vilja án þess að launin komi til með að skerða lífeyrisgreiðslur þeirra.

Í dag fá einstaklingar í sambúð 20% lægri lífeyri en þeir sem búa einir, stafar þessi munur af því að framfærslukostnaður einstaklings sem býr einn er almennt hærri en einstaklings í sambúð. „Við teljum að þessi munur sé of mikill og ætti aldrei að vera meira en 10%. Í Svíþjóð er þetta 9%,“ segir Stefán og bætir við að allt of stór hluti lífeyrisþega í sambúð sé með of lágar greiðslur frá TR.

Gjá milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru öflugri en víða annars staðar. Stefán telur að stjórnvöld hafi aftur á móti iðulega gengið of langt í að spara sér útgjöld til almannatrygginga, í skjóli þess hve vel hefur tekist til að byggja hér upp öfluga lífeyrissjóði. Ríkið hefur þannig dregið úr útgjöldum til almannatryggingakerfisins of snemma, löngu áður en lífeyrissjóðirnir byrja að skila fólki fullri uppsöfnun á réttindum þar.

Brýnt er að almannatryggingar brúi bilið þar til lífeyrissjóðirnir eru farnir að skila til fulls því sem þeir eiga að gera. Í dag er hér mikill lágtekjuvandi vegna þess að almannatryggingar skila ekki sínu á móti lífeyrissjóðunum. Styrkur lífeyrissjóðanna endurspeglast því ekki nógu vel í góðum kjörum lífeyrisþega þar sem gjá hefur myndast milli þeirra og almannatrygginga.

Skýrslan verður kynnt á kjaraþingi ÖBÍ miðvikudaginn 26. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert