Landsréttur sneri við nauðgunardómi

Maðurinn var sakfelldur fyrir héraðsdómi en hefur verið sýknaður af …
Maðurinn var sakfelldur fyrir héraðsdómi en hefur verið sýknaður af Landsrétti. mbl.is/Hallur

Maður sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun í héraði hefur nú verið sýknaður af Landsrétti. Var hann ákærður fyrir að hafa haft samfarir við konu án hennar samþykkis og þannig notfært sér þá stöðu að hún gat ekki veitt mótspyrnu sökum þess að hún var sofandi og hafði neytt kannabisefna. Atvikið átti sér stað 2018.

Fyrir dómi voru lögð fram smáskilaboð þar sem maðurinn bað konuna um að fá að koma til hennar, eftir sjö slík skilaboð lét hún undan og enduðu þau tvö inni í herbergi konunnar. Höfðu þau nokkrum árum áður átt í kynferðislegu sambandi.

Eftir sjö slík skilaboð lét hún undan og leyfði honum …
Eftir sjö slík skilaboð lét hún undan og leyfði honum að koma.

Ein til frásagnar

Eru þau ein til frásagnar um hvað gerðist inni í herberginu, en framburði þeirra bar ekki að öllu leyti saman. Maðurinn lýsti því að þau hafi farið að kyssast og þreifa á hvort öðru og minnti hann að þau hefðu stundað samfarir, svo hefði konan beðið hann að hætta og hann hefði gert það.

Voru þau sammála um það að hann hefði hætt en ekki um aðdragandann. Lýsir konan því að þau hafi legið fáklædd í rúminu og maðurinn hafi verið að nudda á henni bakið en hún hefði gert honum grein fyrir því að hún vildi ekki stunda samfarir og sofnað svo en vaknað við að hann væri að hafa við hana samfarir.

Hefði konan þá farið fram og sótt systur sína og beðið hana að reka manninn út, sem hún gerði. Maðurinn sagðist ekki hafa skilið hvers vegna hann var rekinn út. Hann sendi konunni daginn eftir skilaboð sem sögðu: „fyrirgefðu ef eg gerði eh“.

Orð á móti orði

Í ljósi þess að hver skal vera saklaus uns sekt er sönnuð þurfti ákæruvaldið að sanna að konan hefði verið í slíku ástandi að hún ætti erfitt með að sporna við verknaðinum eða skilja þýðingu hans, einnig þarf að sanna að ákærði hafi ekki fengið samþykki brotaþola.

Hér var um að ræða orð á móti orði og framburður konunnar metinn óstöðugur enda hefði hún að auki verið að reyna að leyna móður sína því að hún hefði neytt kannabis og framburður hennar tók mið af því við upphaf málsins. Ekki þótti það magn sem fannst af kannabis í blóði konunnar nægilega mikið til að ætla að hún hefði ekki verið meðvituð um aðstæður.

Sératkvæði

Athyglisvert er að Eiríkur Jónsson landsréttardómari skilaði sératkvæði í málinu en hann taldi að rétt væri að sakfella ákærða fyrir nauðgun.

Taldi hann að framburður konunnar um að hafa sofnað og vaknað við að maðurinn væri að hafa við hana samfarir án hennar samþykkis, hefði verið stöðugur og trúverðugur. Hann taldi rafræn samskipti þeirra og önnur gögn einnig styðja við þennan framburð.

Þótt konan og systir hennar hafi í upphafi máls haft aðra sögu að segja segir Eiríkur að um aukaatriði sé að ræða og skýrist þetta af hræðslu systranna við að vera vísað af heimili sínu ef upp kæmist um kannabisneysluna.

Að lokum bendir hann á að þótt konan hafi fallist á að þau lægju fáklædd saman í rúmi og maðurinn hafi nuddað á henni bakið fæli það ekki á nokkurn hátt í sér samþykki við kynmökum, þess þó heldur ef konan var sofnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert