Malta nálgast Ísland óðfluga

Kort/Sóttvarnastofnun Evrópu

Ísland er áfram grænt á nýju korti Sótt­varna­stofn­un­ar Evr­ópu með skráð 17,85 smit á hverja 100 þúsund íbúa á tveggja vikna tíma­bili. Alls eru fjögur lönd í Evr­ópu með und­ir 100 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Á Möltu eru smitin 25,26, Portúgal 47,82 og í Finnlandi 52,56.

Sam­kvæmt vefn­um covid.is er ný­gengi smita 10,4 inn­an­lands og 2,7 á landa­mær­un­um.

Í Svíþjóð er staðan verst af Norður­lönd­un­um en þar eru smit­in 577,38 tals­ins á hverja 100 þúsund íbúa. Í Nor­egi eru þau 107,85 og 234,70 í Dan­mörku. Smitin eru flest í Svíþjóð af þeim löndum sem stofnunin heldur utan um en næstflest í Litháen, 562,83. Á Kýpur eru þau 521,84. 

Sótt­varna­stofn­un Evr­ópu held­ur utan um fjölda smita í ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins og Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins og Bret­land því ekki leng­ur talið með.

Staðan í nokkr­um ríkj­um Evr­ópu:

  • Frakk­land 335,03
  • Ítal­ía 191,75
  • Spánn 159,36
  • Þýska­land 207,85
  • Pól­land 130,23
  • Hol­land 483,09
  • Belg­ía 308,82
  • Tékkland 172,81

Samkvæmt lista íslenskra stjórnvalda er þeim sem koma frá Frakklandi, Hollandi, Litháen, Kýpur og Svíþjóð gert að dvelja í sóttvarnahúsi í fimm daga eftir komuna til Íslands þar sem íslensk stjórnvöld telja þau með ríkjum þar sem 14 daga nýgengi er 700 eða meira á hverja 100.000 íbúa eða nýgengi er 500–699 á hverja 100.000 íbúa og hlutfall jákvæðra sýna 5% eða meira, eða full­nægjandi upplýsingar um svæðið eða landið liggja ekki fyrir.

Belgía, Spánn, Þýskaland og Pólland eru á lista stjórnvalda yfir lönd eða svæði þar sem 14 daga nýgengi er 500–699 á hverja 100.000 íbúa, nýgengi er undir 500 á hverja 100.000 íbúa og hlutfall jákvæðra sýna 5% eða meira, eða fullnægjandi upp­lýsingar um svæðið eða landið liggja ekki fyrir.

Skilyrðislaus krafa um sóttkví í sóttvarnahúsi: Farþegar sem koma frá landi eða svæði þar sem nýgengi smita er 700 eða meira þurfa skilyrðislaust að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þetta á einnig við ef nýgengi smita er á bilinu 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er 5% eða hærra, eða ef nýgengi er yfir 500 en fullnægjandi upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. Einungis er vikið frá þessari kröfu ef veigamiklar ástæður mæla með því, svo sem fötlun, þroski eða sambærilegar aðstæður þess sem hlut á að máli.

Krafa um sóttkví í sóttvarnahúsi með möguleika á undanþágu: Farþegar sem koma frá landi þar sem nýgengi smita er 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 5% skulu sæta sóttkví í sóttvarnahúsi en eiga þess kost að sækja um undanþágu frá því skilyrði. Sama máli gegnir um þá sem koma þaðan sem nýgengi smita er undir 500 en hlutfall jákvæðra sýna er 5% eða hærra eða upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. Sá sem sækir um undanþágu þarf að sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum. Hægt er að skrá ósk um undanþágu við forskráningu á heimkoma.covid.is 48-72 klst. fyrir komuna til landsins.

Í dag var síðan greint frá því að um næstu mánaðamót verður felld úr gildi krafa um dvöl í sóttvarnahúsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert