Samherji leggur á ráðin um að kæra Jóhannes Stefánsson uppljóstara í Namíbu og saka hann um þjófnað. Eini tilgangurinn virðist vera að hræða hann frá því að bera vitni gegn Samherja og starfsmönnum fyrirtækisins vegna mútugreiðslna til stjórnmálamanna í Namibíu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Stundinni í dag en þar og í Kjarnanum er fjallað um gögn sem fjölmiðlarnir hafa undir höndum varðandi samskipti starfsmanna Samherja sín á milli um hvernig eigi að bregðast við gagnvart umfjöllun fjölmiðla um fyrirtækið, meðal annars með greinaskrifum í nafni Páls Steingrímssonar skipstjóra.
Frétt Stundarinnar um Jóhannes
Samkvæmt Stundinni gegna þrír einstaklingar þar lykilhlutverki. Þetta eru Þorbjörn Þórðarson almannatengill, Arna Bryndís McClure Baldvinsdóttir lögmaður og Páll Steingrímsson skipstjóri. Sá síðastnefndi hefur látið birta í sínu nafni fjölda greina sem Þorbjörn og Arna hafa ýmist skrifað eða ritstýrt. Öll eru þau í beinu sambandi við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, Björgólf Jóhannsson, sem tímabundið var forstjóri útgerðarinnar, og Jón Óttar Ólafsson, rannsakanda fyrirtækisins samkvæmt umfjöllun Stundarinnar og Kjarnans.
Kjarninn hafði samband við helstu stjórnendur Samherja vegna umfjöllunarinnar og lagði fyrir þá fjölmargar spurningar í tengslum við þessa umfjöllun. Þeim fyrirspurnum var beint til Þorsteins Más Baldvinssonar, Björgólfs Jóihannssonar og Eiríks Jóhannssonar, stjórnarformanns Samherja.
Páll Steingrímsson vildi ekki ræða efnislega um greinarskrif sín eða samskipti við stjórnendur Samherja þegar Kjarninn náði tali af honum. Ekki náðist samband við Þorbjörn Þórðarson, sem svaraði ekki símtölum frá blaðamanni Kjarnans.
Í svari sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á Lex, sendi fyrir hönd Samherja síðdegis í gær kom fram að fyrir lægi að þau gögn sem umfjöllun Kjarnans byggir á hafi fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja. Páll hafi kært innbrotið og meðferð gagnanna til lögreglu fyrir fáeinum dögum þar sem málið bíði lögreglurannsóknar. „Hvorki Samherji hf. né fyrirsvarsmenn félagsins munu fjalla um inntak gagna sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti. Með því væri verið að ljá umfjöllun vægi sem hún á ekki skilið. Fyrirspurnum yðar verður því ekki svarað.“
Í svari Arnars Þórs er þó tiltekið að rétt sé að fram komi að „starfsfólk Samherja hf. hefur fullar heimildir til að ráða ráðum sínum um sameiginleg málefni sín og félagsins og ekkert óeðlilegt við það, sér í lagi þegar þeir og félagið sæta slíkum árásum sem á þeim hafa dunið að undanförnu af hálfu fjölmiðla.“
Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið og fjöldi fordæma eru fyrir því hérlendis sem erlendis að fjölmiðlar birti gögn sem eiga erindi við almenning án þess að hafa upplýsingar um hvernig þeirra var aflað. Það var skýr niðurstaða ábyrgðarmanna Kjarnans að hluti gagnanna ætti sterkt erindi og því eru almannahagsmunir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.
Í Stundinni kemur fram að samskipti sem Stundin hefur séð sýna hvernig Þorbjörn og Arna ýmist skrifa eða í raun handstýra þessum skipstjóra, Páli Steingrímssyni, í skrifum sínum til varnar Samherja. Hann bauð fram aðstoð sína í þessum tilgangi strax 20. nóvember árið 2019, átta dögum eftir birtingu Samherjaskjalanna. Boð sem Margrét Ólafsdóttir, aðstoðarmaður Þorsteins Más Baldurssonar, forstjóra útgerðarrisans, segir í tölvupósti til Þorbjörns að sé „ef við þurfum nafn á einhver skrif“. Þorbjörn svarar um hæl með orðunum: „Frábært að vita af þessu. Ég vista númerið hans og netfang. Mér finnst mjög líklegt að þetta nýtist.“
Og það varð raunin, að því er segir í Stundinni.