Rauði krossinn fagnar vopnahléinu

Hundruð hafa látist í átökum Ísraelshers og Hamas-samtakanna.
Hundruð hafa látist í átökum Ísraelshers og Hamas-samtakanna. AFP

Rauði kross Íslands fagnar því að vopnahlé hafi náðst milli Ísraelshers og Hamas-samtakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Eftir 11 daga langar linnulausar eldflaugaárásir eru afleiðingarnar miklar og langvinnar, segir meðal annars í tilkynningu RKÍ.

Tugþúsundir hafa misst heimili sín, þúsundir særst og hundruð látist, þar af fjöldi barna. Ofan á tjón, mannfall og meiðsl bætast svo sálrænar afleiðingar þess að búa við vopnuð átök, langvarandi hernám og óöryggi, segir RKÍ.

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða hálfmánans í Palestínu hafa aðstoðað við hjálparstarf á stríðshrjáðum svæðum Palestínu, komið særðum til hjálpar og aðstoðað almenning með því að útvega nauðsynjavörur.

Dæmi um að brotið sé gegn alþjóðlegum mannúðarlögum

RKÍ segir að dæmi séu um að bráðaliðum á vegum Rauða hálfmánans hafi verið meinaður aðgangur að hinum fjölmörgu særðum, orðið fyrir beinum árásum af hálfu stríðandi fylkinga og skemmdir unnar á bjögunartækjum, í trássi við alþjóðleg mannúðarlög.

„Rauði krossinn á Íslandi þakkar af heilum hug almenningi, stjórnvöldum og Mannvinum, mánaðarlegum styrktaraðilum Rauða krossins, fyrir þeirra stuðning og snör viðbrögð á neyðartímum. Án þeirra gætum við ekki veitt íbúum Palestínu þennan mikilvæga stuðning.

Þó fyrsti hluti fjárhagsaðstoðarinnar verði nú sendur út þá er ljóst að þörfin er enn mikil og mun án efa aukast enn meira eftir því sem afleiðingar átaka síðustu daga koma betur í ljós. Við bindum því miklar vonir við áframhaldandi aðstoð almennings og heitum því að öllum framlögum verði, hér eftir sem hingað til, varið til góðra verka þar sem þörfin er mest,“ er haft eftir Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra RKÍ.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert