Um næstu mánaðamót verður felld úr gildi skyldudvöl í sóttvarnahúsi vegna komu frá hááhættusvæði felld úr gildi. Það er gert vegna þess að nýgengi smita á landamærum hefur farið stöðugt lækkandi frá því að skyldudvöl á sóttvarnahúsi tók gildi.
Þá hefur Evrópuríkjum fækkað á lista yfir hááhættusvæði. Notkun sóttvarnahúsa verður því færð í fyrra horf, þ.e. fyrir einstaklinga sem gert er að sæta sóttkví og eiga ekki samastað á Íslandi eða geta af öðrum sökum ekki eða vilja ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum.
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna Covid-19 til 15. júní nk. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að a.m.k. 60% þjóðarinnar, sem jafngildir 75% af þeim sem áætlað er að bjóða í bólusetningu, hafi fengið a.m.k. fyrri skammt bólusetningar. Með þessu er tekið undir sjónarmið sóttvarnalæknis um að skynsamlegt sé að halda sýnatöku á landamærum óbreyttri um sinn í því skyni að geta hafið afléttingu sýnatöku á landamærum um miðjan júní.
Þá mun reglugerð dómsmálaráðherra um bann við ónauðsynlegum ferðalögum frá skilgreindum áhættusvæðum vegna Covid-19 falla úr gildi 1. júní
Á ríkisstjórnarfundi í morgun var ákveðið að áður boðað litakóðakerfi á landamærum muni ekki taka gildi. Það er gert þar sem nú er stefnt að því að aflétta hraðar aðgerðum á landamærum gagnvart öllum löndum, óháð stöðu faraldurs í þeim, en áður var talið unnt þar sem fjöldi bólusettra eykst hröðum skrefum. Við slíkar aðstæður er enginn ávinningur í því að taka upp litakóðakerfi í skamman tíma.
Stefnt er að því að hraðpróf verði notuð í stað PCR-prófa í meiri mæli vegna farar úr landi, hvort sem þar eru Íslendingar sem áætla ferðalög erlendis eða erlendir ferðamenn sem hafa dvalið á Íslandi. Vinna við slíkt fyrirkomulag er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu og verður kynnt innan fárra daga.