Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Vesturlands, sem dæmdi karlmann til 30 daga skilorðsbundins fangelsis fyrir líkamsárás. Manninum var gefið að sök að hafa, 2. febrúar 2018, slegið annan mann í andlitið með þeim afleiðingum að maðurinn nefbrotnaði.
Meðal þess sem Landsréttur segir ekki styðja sekt hins ákærða er vitnisburður lögreglufulltrúa sem sagði í héraði að hún hafi rætt við hinn ákærða á vettvangi en að hún myndi ekki hvað hafi farið þeim á milli. Hún myndi þó að ákærði hafi lýst því að brotaþolinn hafi öskrað á sig vegna einhverra óuppgerðra saka þeirra á milli og í kjölfarið hafi ákærði tekið brotaþola hálstaki og slegið hann.
Lögreglukonan kvaðst fyrir Landsrétti ekki geta útskýrt hvað hún átti við með þeim orðum auk þess sem ákærði kannast ekki við að hafa gengist við því á vettvangi að hafa slegið brotaþola. Gat Landsréttur því ekki reist sönnun um sekt hans á framburði lögreglukonunnar.
Þar að auki segir í dómi Landsréttar að misræmis gæti í lýsingu brotaþola um ástand sitt þegar atvik urðu og jafnframt hver upptök átaka voru milli hans og ákærða. Þannig lýsti hann því í skýrslutöku lögreglu að hann hafi verið undir áhrifum áfengis en fyrir héraði lýsti hann því að hafa verið undir áhrifum vímuefna og með ranghugmyndir sökum þess.
Þannig er ákærði í málinu sýknaður fyrir Landsrétti og mun sakarkostnaður, eins og kveðið er á um hann í dómi héraðsdóms, greiðast úr ríkissjóði.