Steypusílóin á Sævarhöfða standa áfram, fá nýtt líf og verða tákn sjálfbærni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg um niðurstöður í alþjóðlegu hönnunarsamkeppninni Reinventing Cities sem kynntar voru í morgun.
Hönnunarteymi sem samanstendur af Maríusi Þóri Jónassyni og Sigríði Ósk Bjarnadóttur hjá VSÓ ráðgjöf, Kristbjörgu Maríu Guðmundsdóttur hjá MStudio og Birni Gunnlaugssyni hjá Íslenskum fasteignum bar sigur úr býtum í keppninni að þessu sinni og veitti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þeim viðurkenningu í morgun.
Hönnunarteymið kallar tillögu sína Vaxtarhús og hefur hringrásarhagkerfið að leiðarljósi. Í forsendum samkeppninnar voru þátttakendur hvattir til að sýna fram á skapandi hugsun og bjarta framtíðarsýn með grænt og vistvænt borgarumhverfi í huga. Vinningstillagan gerir ráð fyrir borgarbúskap, veitingastað og lifandi samfélagsmiðju í ört stækkandi Bryggjuhverfi.
Í kynningu sinni sögðu verðlaunahafarnir að hugmyndirnar gerðu ráð fyrir að draga verulega úr kolefnislosun miðað við hefðbundna hönnun með því að endurnota byggingar og byggingarefni, hanna byggingareiningar til að taka í sundur, nota umhverfisvæn efni á borð við svokallaða „græna steypu“ og lágmarka orkunotkun.
„Svæðið hefur ríka steypusögu og það eru mikil tækifæri að vinna með þennan efnivið. Þarna er mikil steypa og frábært ef hægt er að nota hana áfram. Það er til mikils að vinna ef við getum gert steypu umhverfisvænni og sýnt fram á að það sé hægt,“ segir Sigríður Ósk Bjarnadóttir.