Víðavangshlaup þar sem keppendur reyna við kraftaþrautir með reglulegu millibili verður haldið á morgun, laugardag. Alls eru keppendurnir 100 talsins í þessu þrautahlaupi Kettlebells Iceland.
Keppendur verða ræstir út í nokkrum hollum og verður fyrsta holl ræst af stað kl. 11 frá Engjavegi í Mosfellsbæ en þetta er í annað skiptið sem hlaupið er haldið.
Á bakvið hlaupið standa hjónin Guðjón Svannson og Vala Mörk, eigendur Kettlebells Iceland. Sunna Björk Símonardóttir hefur verið þeim hjónum innan handar við undirbúning hlaupsins og ræddi blaðamaður mbl.is við hana um hlaupið.
„Fyrirmyndin af Þrautahlaupi Kettlebells Iceland eru Spartan hlaupin sem er alheimsmótaröð sem tvisvar hefur komið til Íslands. En það var í síðara skiptið 2018 sem hópur frá okkur tók þátt í slíkri keppni og satt að segja féllum við alveg fyrir þessari hugmynd,“ segir Sunna.
Að sögn Sunnu voru fyrirhugaðar ferðir til Ítalíu, Írlands og Austurríkis á síðasta ári en vegna Covid-19 var hætt við þær. Eigendur Kettlebells Iceland ákváðu að taka málin í sínar eigin hendur og skipulögðu sitt eigið hlaup. Í keppnum erlendis er boðið upp á nokkrar vegalengdir en í þrautahlaupi Kettlebells Iceland verður aðeins boðið upp á eina, 10+ km.
Á vefsíðu KB Iceland segir að: „farið er um fell og malarstíga í nágrenni Mosfellsbæjar. Þrautirnar eru fjölbreyttar og mismunandi krefjandi, en með þrautseigju, góðum vilja og hugsanlega aðstoð geta þeir sem vilja komist í gegnum þær“.
Engin tímataka verður í hlaupinu og enginn sérstakur sigurvegari krýndur enda snýst keppnin um að sigra sjálfan sig og gera góðverk í leiðinni.
„Hlaupið er opið öllum og fer ágóðinn í að styrkja það góða starf sem fer fram á Reykjadal,“ segir Sunna að lokum.
Uppfært kl. 11:15
Vegna forfalla eru nú þrjú laus pláss í keppnina. Skráning fer fram á vefsíðu Kettlebells Iceland.