Bjarg íbúðafélag hefur ákveðið að lækka leigu íbúða sinna um 25 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Meðalleiga 190 leigutaka félagsins mun því lækka um 14%, úr 180 þúsund krónum í 155.
Þetta er gert í kjölfar nýlegrar endurfjármögnunar félagsins og endurskoðunar rekstrar fjölbýlishúsa Bjargs við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík.
Bjarg er húsnæðissjálfseignarstofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.