Greinileg spurn er eftir húsnæði á Seyðisfirði og vilja margir búa þar, þrátt fyrir náttúruhamfarir þar síðastliðinn vetur, að sögn sveitarstjóra. Nú lítur sveitarfélagið Múlaþing til atvinnuuppbyggingar á svæðinu og skoðar möguleikann á því að færa hús sem hafa menningarlegt gildi af svæðum sem eru talin hættuleg. Þá er húsnæðisuppbygging einnig í kortunum.
„Þetta er afskaplega fallegur staður og það skiptir miklu máli að við náum að þróa hann með jákvæðum hætti til framtíðar,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.
Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði í lok síðasta árs. Hreinsunarstarf á svæðinu hefur gengið vel. Nokkur hús standa enn á svæði sem er talið hættusvæði. Í þessum húsum getur fólk ekki lengur búið og verða þau því keypt af hinu opinbera. Horft er til markaðsverðs í þessum tilvikum en í tilfellum þeirra húsa sem altjón varð á í skriðunum er litið til brunabótamats.
„Sveitarfélagið hefur keypt eina íbúð. Síðan var mér falið á fundi byggðarráðs í vikunni að gera öðrum húseigendum lokatilboð í þeirra eignir. Það er verkefni sem við höfum unnið í samstarfi við ofanflóðasjóð,“ segir Björn.
Hann segir ljóst að þurfi að finna nýtt rými fyrir atvinnuuppbyggingu og í því samhengi sé horft til hafsagnarstarfsemi.
„Síðan eru menn líka að vinna að deiliskipulagsbreytingum út frá uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Við bindum vonir við það að það verði hægt að hrinda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis af stað fyrir sumarið. Það er klárlega vöntun á slíku,“ segir Björn.
Samkvæmt ársskýrslu Náttúruhamfaratrygginga Íslands skemmdust ellefu hús í aurskriðunum sem féllu 15. til 17. desember sl. Spurður um líðan íbúa og það hvort fólk sé enn í áfalli eftir hamfarirnar segir Björn:
„Það er náttúrulega eitthvað sem við erum að vinna með hverjum og einum í gegnum félagsþjónustuna og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Markmiðið er að styðja við fólk eins og hægt er. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem munu eiga erfitt með að snúa til baka en í flestum tilvikum er þetta að gera sig.“
Aðspurður segir Björn það ekki vera stöðuna að fólk hafi ákveðið í stórum stíl að flytjast búferlum frá Seyðisfirði. Margir íbúar eigi sterk tengsl við Seyðisfjörð og vilji helst vera þar. Eins og áður segir er íbúðauppbygging á svæðinu fyrirhuguð. Þar ber helst að nefna íbúðakjarna fyrir 60 ára og eldri. Hann gæti, að sögn Björns, skapað möguleika fyrir fólk til þess að flytja úr stærra húsnæði og þannig losað um húsnæði fyrir aðra.
„Síðan er leigufélagið Bríet að byggja þarna tvö parhús, þar koma fjórar íbúðir. Svo er enn annar aðili að fara að byggja þarna húsnæði sem verður annaðhvort til sölu eða leigu,“ segir Björn.
Búið er að bæta verulega í vöktun á aurskriðum á svæðinu og útlit fyrir að eftirlit verði bætt enn meira.
„Eftirlitið með þessu er mun virkara en það var. Ég á aftur á móti ekki von á því að við fáum endanlega hættumatið fyrr en í sumar,“ segir Björn.
Uppbyggingin á Seyðisfirði hlýtur að hafa áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins næstu árin?
„Það á eftir að koma í ljós endanlega en það er alveg ljóst að bæði náttúruhamfaratryggingar og ofanflóðasjóður koma að þessu verkefni. Síðan hafa stjórnvöld ekki verið neitt að draga dul á að það er fullur vilji að styðja við þetta og koma þá með fjárfrumvörp sérstök til þess að gera þetta mögulegt. Menn eru alveg meðvitaðir um að þetta er eitthvað sem sveitarfélagið ræður illa við.“
Til viðbótar við vöktun vegna aurskriðna á að setja upp varanlegar snjóflóðavarnir undir fjallinu Bjólfi.
„Það er verið að horfa til varanlegra varna, þetta er langtímaverkefni en hönnunin er í raun komin á lokastig. Útboðsferlið er að hefjast og framkvæmdir eru að fara af stað. Við gerum ráð fyrir því að þær muni hefjast síðsumars og ferlið muni taka um fimm ár,“ segir Björn.