Áskrifandi til 50 ára hreppti fyrsta vinning

Sidda hjá nýja rúminu sem hún vann í happatöluleiknum.
Sidda hjá nýja rúminu sem hún vann í happatöluleiknum.

Dregið var í happatöluleik Morgunblaðsins á K100 í gær, en í þetta skipti var vinningurinn glæsilegt heilsurúm. Sigríður Jóna Friðriksdóttir hafði heppnina með sér og hreppti þennan fyrsta vinning af fimm, en dregið verður í leiknum á hverjum föstudegi til 18. júní.

„Mér fannst það dásamlegt, þetta kom mér gjörsamlega í opna skjöldu,“ segir Sigríður, eða Sidda eins og hún er alla jafna kölluð, við blaðamann. „Þetta er rosalega flott rúm, maður bara gapir. Ég er eiginlega ekki búin að ná mér niður enn þá.“

Sidda, sem er 67 ára gömul, gerðist áskrifandi að Morgunblaðinu 18 ára og hefur því lesið blaðið í að verða fimm áratugi. „Ég er búin að vera áskrifandi alla ævina, alveg frá því ég byrjaði að búa.“ Hún segist taka afar sjaldan þátt í leikjum af þessu tagi, og hafi í raun skráð sig í pottinn á síðustu stundu. „Ég hafði séð auglýsinguna um leikinn fyrir viku og gleymt honum. En svo mundi ég skyndilega eftir honum í gær og sendi töluna inn snemma um morguninn.“

Það hefði ekki mátt síðar vera, en vinningshafi var tilkynntur í þættinum Ísland vaknar á K100 í gærmorgun.

Happatöluleikurinn snýst um að finna happatölu sem falin verður í hverju fimmtudagsblaði Morgunblaðsins næstu vikurnar. Að happatölu fundinni er hægt að skrá sig í pottinn mbl.is/happatala.

jonn@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert