Fluttur á bráðadeild eftir rafskútuslys

Tilkynnt var um rafskútuslys í miðborginni skömmu eftir miðnætti í nótt. Fram kemur í dagbók lögreglu að maður hafi dottið af rafskútunni og meiðst á höfði. Hann var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild. 

Um klukkan 21:20 var tilkynnt um umferðarslys á Kringlumýrarbraut þegar bifhjól og rúta lentu saman. Hjólið skemmdist talsvert. Slys urðu á fólki en ekki fengust upplýsingar um líðan þess. 

Skömmu fyrir klukkan 19 var tilkynnt um þjófnað á eldsneyti og vörum frá bensínstöð í Breiðholti. Kona hafði veist að starfsmanni bensínstöðvarinnar, en var farin af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn. Viðkomandi var handtekin síðar. Þá var tilkynnt um nytjastuld bifreiðar frá bílasölu í sama hverfi og var bifreiðin stöðvuð nokkrum klukkustundum síðar. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður  um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur án ökuréttinda, vörslu fíkniefna og innbrot. 

Þá var skömmu fyrir klukkan 4 í nótt tilkynnt um yfirstandandi brot í verslun í Hlíðunum. Tveir menn spenntu upp hurð verslunarinnar og stálu rafmagnshlaupahjólum. Mennirnir náðust ekki og er málið í rannsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert